Ferðamenn „dauðhræddir“ við 737 MAX

Icelanda­ir var með sex 737 MAX-þotur í um­ferð hjá sér …
Icelanda­ir var með sex 737 MAX-þotur í um­ferð hjá sér þangað til í mars síðastliðnum þegar vél­arn­ar voru kyrr­sett­ar á heimsvísu vegna tveggja ban­vænna flug­slysa. mbl.is/Hari

Flugvélaframleiðandinn Boeing hóf auglýsingaherferð um miðjan september með það að markmiði að fullvissa ferðafólk um öryggi 737 MAX-vélanna sem hafa verið kyrrsettar á heimsvísu vegna tveggja flugslysa.

Auglýsingarnar eru í formi 30 sekúndna myndbanda. Þær hafa ekki haft erindi sem erfiði og hafa vakið neikvæð viðbrögð. Sérfræðingur í þessum efnum segir að farþegar séu enn dauðskelkaðir við að fljúga með 737 MAX vél. 

Einungis 14% ferðafólks sem ferðast sér til skemmtunar myndi fúslega fljúga með 737 MAX-vél á næstu sex mánuðum. 

„Öryggi er kjarni fyrirtækisins. Við höfum fengið hundruð verkfræðinga til þess að tryggja að flugvélin sé alveg tilbúin,“ segir Jennifer Henderson, yfirmaður reynsluflugmanna 737-vélanna, í einni auglýsinganna. 

„Þegar 737 MAX verður tekin aftur í notkun mun ég svo sannarlega fljúga með fjölskyldunni minni í slíkri flugvél,“ bætir Jennifer við. 

50% myndu borga meira til að sleppa við 737 MAX

Auglýsingin var m.a. sett inn á Facebook-síðu fyrir áhugamenn um Boeing og uppskar hún þar neikvæð viðbrögð. 

„Jæja, ég held að hún hefði ekki getað sagt að vélin væri óörugg,“ sagði einn félagi í hópnum. 

„737 MAX er sem stendur ekki velkomin. Farþegar vilja ekki fljúga með henni,“ segir Henry Hartveldt, forseti Atmosphere Research Group í San Francisco við fréttastofu AFP.

„Ferðamenn eru ekki bara hræddir við 737 MAX-vélina. Þeir eru dauðhræddir.“

Einungis 14% ferðafólks sem ferðast sér til skemmtunar myndi fúslega fljúga með 737 MAX-vél á næstu sex mánuðum á móti 19% viðskiptaferðamanna, samkvæmt könnun Atmosphere Research Group. Tæplega helmingur svarenda sagðist myndu greiða meira til að forðast 737 MAX-vélina. 

Hafa ekki skilað breyttu MCAS

Boeing stendur frammi fyrir því þrekvirki að endurheimta traust flugmálayfirvalda og almennings sjö mánuðum eftir að 737 MAX-vél á vegum Ethiopian Airlines fórst og 157 manns með henni. 

Þá hafði 737 MAX-vél Lion Air einnig farist nokkrum mánuðum fyrr og 189 manns með henni. MCAS hugbúnaði 737 MAX-vélanna hefur verið kennt um bæði tilvikin en hann á að auðvelda flugmönnum að fljúga vélinni. 

Enn er óvíst hvenær 737 MAX-vélarnar verða teknar aftur í notkun. Boeing hefur enn ekki skilað breyttri útgáfu af MCAS-kerfinu til eftirlitsaðila. Fyrirtækið vonar þó að það verði fyrir lok ársins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina