Fundu tvö lík um borð

Líkin tvö fundust hvort í sínum klefanum.
Líkin tvö fundust hvort í sínum klefanum. Ljósmynd/AS Tallink Grupp

Tvö lík fundust um borð í ferjunni Silja Europa, sem siglir á milli Tallinn í Eistlandi og Helsinki í Finnlandi, í morgun. Hin látnu voru 25 ára kona og 21 árs karlmaður sem bæði eru frá Finnlandi. Finnski miðillinn Iltalehti greindi fyrstur frá.

Hin látnu voru hvort í sínum klefanum sem eru fjarri hvor öðrum, en að sögn lögreglu virðast engin tengsl milli dauða þeirra. Konan fannst látin klukkan þrjú í nótt, en maðurinn tveimur tímum síðar. Engin merki um ofbeldi fundust á líkömum þeirra, en niðurstaða krufningar mun sennilega ekki liggja fyrir fyrr en eftir nokkrar vikur.

Marika Nöjd, upplýsingafulltrúi skipafélagsins, segir að lögregla og sjúkralið hafi strax verið kölluð til þegar líkið fannst. „Vanalega eru það eldri manneskjur sem finnast látnar. Þetta virðist vera hrein tilviljun,“ segir hún.

Uppákoman hafði þó lítil áhrif á áætlun skipsins, sem lagði af stað frá Tallinn yfir til finnsku höfuðborgarinnar klukkan hálfeitt í hádeginu í dag.

mbl.is