Dregur samninginn frekar til baka

AFP

Verði breytingatillögur við samning ríkisstjórnar Boris Johnson við Evrópusambandið, um útgöngu Bretlands úr sambandinu, samþykktar í breska þinginu hyggst forsætisráðherrann frekar hætta við að reyna að koma samningnum í gegnum þingið en breytingarnar nái fram að ganga.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Johnson hafi greint hópi þingmanna, sem rekinn var úr Íhaldsflokki hans í síðasta mánuði fyrir að greiða atkvæði gegn ríkisstjórninni, frá þessu í kvöld. Frekar myndi hann fresta útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og knýja fram þingkosningar.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Verkamannaflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hefur boðað breytingatillögur þess efnis að Bretland verði áfram innan tollabandalags Evrópusambandsins og að haldið verði nýtt þjóðaratkvæði um hvort Bretar eigi að yfirgefa sambandið, þá með samningi forsætisráðherrans, eða vera áfram innan þess.

Líkurnar á útgöngu án samnings hafi aukist

Fram kemur í fréttinni að ríkisstjórnin vonist til þess að fengið útgöngusamninginn samþykktan fyrir fimmtudagskvöldið til þess að Bretland geti yfirgefið Evrópusambandið í lok mánaðarins. Stjórnarandstæðingar eru sagðir leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að Bretar yfirgefi sambandið 31. október.

Breski ráðherrann Michael Gove, sem sér um undirbúning fyrir mögulega útgöngu án útgöngusamnings, hefur sagt að framganga þingmanna hafi gert það að verkum að útganga án samnings hafi orðið líklegri en áður. Ríkisstjórnin hafi fyrir vikið hafið vinnu við að virkja viðbragðsáætlanir vegna þess möguleika.

AFP
mbl.is