Fundu skip sem var sökkt í seinni heimsstyrjöld

Auðjöfurinn Paul Allen heitinn hóf leitarverkefnið.
Auðjöfurinn Paul Allen heitinn hóf leitarverkefnið. AFP

Rannsakendur á skipinu Petrel hafa fundið tvö flugmóðurskip Japana sem sökkt var í orrustu við Bandaríkin í seinni heimsstyrjöldinni. Skipin eru á meðal sjö sem sökkt var í orrustunni um Midway árið 1942.

Flak flugmóðurskipsins Kaga fannst í síðustu viku og leifar Akagi fundust í gær. Þar til í síðustu viku hafði einungis eitt skipanna sjö sem sukku í orrustunni fundist; bandaríska skipið USS Yorktown.

Núverandi fundur var gerður eftir víðtæka leit á miklu dýpi í Kyrrahafi, um tvö þúsund kílómetra norðvestur af Hawaii.

Paul Allen, sem stofnaði Microsoft ásamt Bill Gates, stofnaði fyrirtækið Vulcan Inc., sem á rannsóknarskipið Petrel. 

Samkvæmt frétt BBC létust um tvö þúsund Japanar og þrjú hundruð Bandaríkjamenn í orrustunni.

mbl.is