Kasta kartöflum í Bandaríkjaher

Her Bandaríkjanna hefur þegar yfirgefið tvö héruð í norðausturhluta Sýrlands …
Her Bandaríkjanna hefur þegar yfirgefið tvö héruð í norðausturhluta Sýrlands að fullu. AFP

Almennir borgarar hafa tekið upp á því að kasta kartöflum í Bandaríkjaher sem vinnur nú að flutningi frá sýrlensku borginni Qamishli.

Her Bandaríkjanna hefur þegar yfirgefið tvö héruð í norðausturhluta Sýrlands að fullu og skilið það eftir í höndum Kúrda, sinna aðalbandamanna í stríðinu gegn ríki íslams í Sýrlandi, að verja yfirráðasvæði sín fyrir Tyrkjum.

Samið var um fimm daga vopnahlé á milli herja Tyrklands annars vegar og Kúrda og al-Assad Sýrlandsforseta hins vegar fyrir milligöngu Bandaríkjanna á fimmtudag og ætlast Tyrkir til þess að Kúrdar yfirgefi hið svokallaða öryggissvæði í Norður-Sýrlandi, ellegar „jafni þeir Kúrda við jörðu“.

Ákvörðun Donalds Trum Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkjaher frá norðausturhluta Sýrlands hefur verið harðlega gagnrýnd og er hann jafnvel sagður vera að svíkja bandamenn sína, Kúrda, og gefa Tyrkjum grænt ljós á að ráðast á þá, en þeir álíta Kúrda hryðjuverkamenn.

mbl.is