Myrti samstarfskonu sína og bútaði í sundur

Wikipedia

Frönsk kona hefur verið ákærð fyrir að hafa myrt samstarfskonu sína, hlutað lík hennar í sundur og kastað líkamsleifum hennar í síki.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að konan, Sophie Masala sem er 55 ára gömul, hafi verið handtekin í maí 2016, tveimur vikum eftir að fórnarlambið var barið til bana með vínflösku. Hefur Masala viðurkennt að hafa myrt samstarfskonuna, Marilyne Planche sem var 52 ára, í átökum á heimili Planche.

Fótleggir Planches fundust í plastpokum í síkinu Canal du Midi og búkur hennar í ferðatösku í nágrenninu. Saksóknarar segja að Masala, sem á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi, hafi hatast út í Planche vegna velgengni þeirrar síðarnefndu.

Sneri aftur í íbúðina með sög og hníf

Masala segist þó ekki hafa ætlað að myrða Planche. Vitni sögðust hafa heyrt konurnar rífast í íbúð Planche í borginni Toulouse. Masala er ákærð fyrir að hafa barið Planche í höfuðið með vínflösku og síðan farið heim til sín.

Fáeinum dögum síðar segja saksóknarar að Masala hafi snúið aftur í íbúð Planche með sög og hníf, hlutað líkið í sundur og ekið líkamsleifunum í innkaupakerru að síkinu. Höfuð Planche geymdi hún í bakpoka. Tilkynnt var um hvarf Planche 22. maí 2016 og tveimur dögum síðar tilkynnti vegfarandi um að líkamsleifar hefðu fundist við göngubrú yfir síkið. Lögreglan fann í kjölfarið fleiri poka með líkamsleifum.

Höfuð Planche fannst nokkru síðar grafið í garðinum við heimili Masalas í Toulouse.

mbl.is