Vilja hjálmaskyldu á hlaupahjól

Á rafhlaupahjóli. Danir íhuga nú að setja reglur um notkun …
Á rafhlaupahjóli. Danir íhuga nú að setja reglur um notkun þeirra. AFP

Hjálmaskylda og hraðatakmarkanir. Þetta er meðal þeirra aðgerða sem yfirlæknar á stærstu sjúkrahúsunum í Danmörku leggja til til þess að fækka slysum á rafknúnum hlaupahjólum. Í dag mun Benny Engelbrecht, ráðherra samgöngu- og umferðarmála í Danmörku, funda með sveitarfélögunum um lausnir.

Tugir Dana hafa leitað á bráðamóttökur sjúkrahúsanna undanfarna mánuði vegna meiðsla sem þeir hafa orðið fyrir við að ferðast á hjólunum sem m.a. eru beinbrot, heilahristingur og gat á höfuðið. 

Fjallað er um þetta á vef danska ríkisútvarpsins, DR, í dag. Þar segir Søren W. Rasmussen, yfirlæknir á bráðamóttökunum á spítölunum á Friðriksbergi og í Bispebjerg, sem báðir eru á Kaupmannahafnarsvæðinu, að undanfarna þrjá mánuði hafi fjölmargir leitað þangað vegna meiðsla sem rekja má til notkunar rafhlaupahjóla. „Rúmlega 40% hafa fengið höfuðhögg og stór hluti þeirra gæti hafa fengið heilahristing,“ segir hann.

Fara hraðar en skellinöðrur

Sömu sögu er að segja frá háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum, en þar hafa 28 hlaupahjólaslys verið skráð síðan í júlí. Samkvæmt greiningu sem gerð var á  spítalanum er meiri hætta á að slasast á rafmagnshlaupahjóli en á reiðhjóli. „Fáir nota hjálm,“ segir Niels Dieter Röck, yfirlæknir á bráðadeild sjúkrahússins.

Hann leggur til að tekin verði upp hjálmaskylda hjá þeim sem nota rafhlaupahjól. „Hraðinn á þeim er meira í ætt við skellinöðrur en reiðhjól. Og það er skylda að vera með hjálm á skellinöðru,“ segir Röck.

Þessu er Rasmussen, kollegi hans á bráðamóttökunum á spítölunum á Friðriksbergi og í Bispebjerg, sammála. „Hjálmur er virkilega góð hugmynd,“ segir hann og bætir við að vel megi stilla hlaupahjólin þannig að þau keyri hægar en nú er. 

Í dag stendur til að Benny Engelbrecht, ráðherra samgöngu- og umferðarmála, fundi með talsmönnum fjölda sveitarfélaga þar sem ræða á reynsluna af rafhlaupahjólunum. 

mbl.is