Banzai! Og nýr keisari var krýndur

Hirðmenn drógu frá dimmfjólublá tjöld, sem haldið var uppi með gullsúlum, í hinu íburðarmikla Furuherbergi í keisarahöllinni í Tókýó í Japan. Við blöstu keisarahjónin, klædd hefðbundnum skrúða. Þessi athöfn í morgun var lokaathöfnin í  krýningu Naruhitos, sem nú er orðinn Japanskeisari. 

Akishino, krónprins Japans, og eiginkona hans, Kiko krónprinsessa, ganga fremst …
Akishino, krónprins Japans, og eiginkona hans, Kiko krónprinsessa, ganga fremst í fylkingu japönsku keisarafjölskyldunnar á krýningarathöfnina í morgun. AFP

„Hér með tilkynni ég krýningu mína hér á landi og í öðrum löndum,“ sagði Naruhito sem klæddur var hinum svokallaða keisarakufli og yfir hann bar hann koparlitaða skikkju. Masako keisaraynja var klædd hefðbundnum kimono. Hún er með háskólagráðu frá Harvard-háskóla og fyrrverandi sendierindreki í japönsku utanríkisþjónustunni.

Dóttirin getur ekki erft

Hjónin eiga eitt barn, dótturina Aiko sem er 17 ára. Samkvæmt japönsku keisaralögunum geta eingöngu karlmenn setið á keisarastóli og keisarabornar konur, sem giftast fólki af alþýðustigum, missa titil sinn. Yngri bróðir Naruhitos, Akishino, fékk í dag titilinn krónprins Japans og sonur hans, hinn 13 ára gamli Hisahito, stendur honum næst í erfðaröðinni.

Frá krýningarathöfninni í morgun.
Frá krýningarathöfninni í morgun. AFP

Skoðanakannanir sem gerðar hafa verið í Japan hafa sýnt að 74% landsmanna styðja breytingar á keisaralögunum á þá vegu að konur geti orðið keisarar. 

Undirbúningurinn fyrir krýninguna hefur staðið yfir frá því faðir Naruhitos, Akihito keisari, sagði sig frá völdum í apríl síðastliðnum og athöfnin í dag var samkvæmt 2.000 ára gömlum hefðum. Reyndar þurfti að fresta skrúðgöngu sem fyrirhuguð hafði verið vegna fellibylsins Hagibis sem reið yfir Japan í síðustu viku.

Hitachi Japansprins kemur á athöfnina.
Hitachi Japansprins kemur á athöfnina. AFP

Í tilefni keisarakrýningarinnar var hálfri milljón Japana, sem sakfelldir höfðu fyrir yfirsjónir á borð við umferðarlagabrot, veitt uppgjöf saka.

Shinzo Abe lyfti höndum og hrópaði Banzai!
Shinzo Abe lyfti höndum og hrópaði Banzai! AFP

Íslensku forsetahjónin viðstödd

Naruhito hét því að stuðla að hamingju og farsæld japönsku þjóðarinnar og heimsfriði öllum og að uppfylla skyldur sínar sem tákn Japans og samstöðu þeirra sem landið byggja. Meðal þeirra sem viðstödd voru var Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sem hét keisaranum því að japanska þjóðin myndi virða hann. Að því búnu lyfti Abe höndum sínum þrisvar og kallaði „Banzai!“ sem þýðir lengi lifi keisarinn!

Naruhito gengur úr salnum í lok athafnarinnar.
Naruhito gengur úr salnum í lok athafnarinnar. AFP

Þá voru íslensku forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid meðal þeirra sem viðstödd voru krýningarathöfnina.

Frá krýningarathöfninni.
Frá krýningarathöfninni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert