Brexit-tímaáætlun ríkisstjórnarinnar felld

Johnson lýsti því yfir við þingmenn að hann væri vonsvikin …
Johnson lýsti því yfir við þingmenn að hann væri vonsvikin með þessa niðurstöðu, þeir hefðu með þessu kosið um frest og að óvissa væri nú fyrir dyrum. Hans skoðun væri þó sú að Bretlandi ætti að ganga út úr Evrópusambandinu 31. október, eins og ráðgert er. AFP

Neðri deild breska þingsins hafnaði í kvöld tillögu Boris Johnson forsætisráðherra um að greiða atkvæði um útgöngusamning Bretlands við Evrópusambandið á næstu þremur dögum. Tekist var á um það hversu mikinn tíma þingið hefði til þess að fara yfir samninginn, en áður hafði meirihluti þingmanna þó stutt aðra tillögu forsætisráðherrans um efnislega meðferð útgöngusamningsins í þinginu með 329 atkvæðum gegn 299.

Útgöngusamningurinn virðist þannig njóta stuðnings, en ekki áætlun stjórnvalda um að hraða honum í gegnum þingið á þremur dögum.

Johnson hótaði því að draga samninginn til baka og þrýsta á um kosningar, myndu þingmenn ekki fallast á tillögu hans um að rýna í þennan 110 blaðsíðna langa samning á næstu þremur dögum og ljúka afgreiðslu allra þeirra lagafrumvarpa sem nauðsynleg væru til þess að hann gæti skilað því að Bretland gengi úr Evrópusambandinu í lok mánaðar.

Atkvæðagreiðslan tapaðist hins vegar, með 322 atkvæðum gegn 308. Í kjölfarið sagði Johnson þingmönnum að hlé yrði gert á málinu í þinginu og hann myndi leita viðbragða leiðtoga Evrópusambandsins við þeirri stöðu sem upp er komin.

Samkvæmt frétt AFP þýðir þessi niðurstaða í kvöld að nánast ómögulegt sé að Bretland geti gengið út úr Evrópusambandinu með samning um mánaðamótin eins og Bretar höfðu ráðgert.

Donald Tusk, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, gaf það út eftir þessa niðurstöðu að hann mælti með því að leiðtogar ESB-ríkjanna veiti Bretum frest til þess að klára þinglega meðferð samningsins, til þess að koma í veg fyrir að Bretar gangi út án samnings.

Johnson lýsti því yfir við þingmenn að hann væri vonsvikinn með niðurstöðuna, þeir hefðu með þessu kosið um frest og að óvissa væri nú fyrir dyrum. Hans skoðun væri þó sú að Bretlandi ætti að ganga út úr Evrópusambandinu 31. október, eins og ráðgert er.

Jeremy Corbyn formaður Verkamannaflokksins sagði Johnson hafa kallað vandræði sín yfir sig, en bauðst jafnframt til þess að ganga til viðræðna um „skynsamlega“ tímaáætlun um þinglega meðferð samningsins.

Frétt BBC um málið

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is