Góðar og slæmar fréttir fyrir Trudeau

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og flokkur hans, Frjálslyndi flokkurinn, hrósuðu sigri í kanadísku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Sigurinn er þó súrsætur þar sem flokkurinn tapar fylgi en fær samt sem áður flesta þingmenn. 

Góðu fréttirnar fyrir Trudeau eru þær að hann er enn við völd. Frjálslyndi flokkurinn hlaut 157 þingmenn en Íhalds­flokk­ur­inn, und­ir stjórn Andrew Scheer, hlaut 121 þing­mann. Sam­tals sitja 338 þing­menn á kanadíska þing­inu og þarf því 170 þing­menn að lág­marki til þess að mynda meiri­hluta. Ljóst er að flokk­ur­inn mun mynda minnihlutastjórn með stuðningi eins eða fleiri flokka. 

Skilaboð Trudeau til kjósenda eru skýr ef marka má Twittter: Hann ætlar að halda ótrauður áfram. 

Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að stjarna Trudeau sem stjórnmálamanns virðist ekki skína jafn skært og áður þó hann njóti enn töluverðra vinsælda meðal kanadískra kjósenda. Trudeau vann stór­sig­ur fyr­ir fjór­um árum þegar Frjáls­lyndi flokk­ur­inn hlaut meiri­hluta á kanadíska þing­inu en ýmis hneykslismál sem hafa komið upp á nýliðnu kjörtímabili hafa sett svip á stjórn­artíð hans. 

Justin Trudeau smellir kossi á eiginkonu sína Sophie Grégoire Trudeau …
Justin Trudeau smellir kossi á eiginkonu sína Sophie Grégoire Trudeau á kosningavöku Frjálslynda flokksins í gær. AFP

Þar má helst nefna umdeilt fjölskyldufrí til Indlands, SNC-Laval­in-mál­ið svo­nefnda þar sem Trudeau braut siðareglur og síðast en ekki síst myndir sem birtust af Trudeau í haust þar sem hann skartaði dökk­brún­um and­lits­farða, svo­kölluðu „brown­face“ á gala-balli á veg­um einka­skóla sem hann fór á fyr­ir nærri tveim­ur ára­tug­um.

Fleiri slæmar fréttir fyrir Trudeau og Frjálslynda flokkinn eru þær að flokkurinn tapaði fylgi í vesturhluta landsins, þ.e. Alberta og Saskatchewan þar sem Íhaldsflokkurinn jók fylgi sitt. 

Í ræðu sinni til stuðningsmanna var Trudeau kokhraustur og sagði hann íbúa hvaðanæva að landinu hafnað sundrungu og neikvæðni en kosið með framsækinni stefnu og umfangsmiklum aðgerðum í loftslagsmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert