Hvað verður um hjákonu konungs?

Sineenat Wongvajirapakdi, fyrrverandi hjákona Taílandskonungs.
Sineenat Wongvajirapakdi, fyrrverandi hjákona Taílandskonungs. AFP

Hvað verður um hana núna? Þetta er spurning sem margir hafa spurt sig eftir að fregnir bárust af því í gær að kon­ung­ur Taí­lands, Maha Vajiralong­korn eða Rama X, hefði svipt hjá­konu sína, Sineenat Wongvajirapak­di, sem geng­ur und­ir gælu­nafn­inu Koi, öll­um titl­um.

Að auki var hegðun henn­ar fordæmd op­in­ber­lega og ástæðan var sögð vera vanþakk­læti og óhóf­leg met­orðagirnd henn­ar. Þetta var ekki útskýrt nánar. Vegna taílenskra laga, sem kveða á um virðingu fyrir konungsfjölskyldunni, má ekki fjalla opinberlega í Taílandi um hegðun eða embættisfærslur konungs.

Koi starfaði áður sem flugmaður, hjúkr­un­ar­fræðing­ur og líf­vörður. Hún var fyrsta kon­an í um 100 ár  sem fékk titil­inn „Kon­ung­leg­ur maki“ í Taílandi, en titil­inn fékk hún á 67 ára af­mæl­is­degi kon­ungs í sum­ar. Það er ekki óþekkt í sög­unni að Taí­landskon­ung­ar taki sér op­in­ber­lega hjá­kon­ur.

Maha Vajiralongkorn, konungur Taílands, ásamt Suthidu drottningu og dóttur sinni, …
Maha Vajiralongkorn, konungur Taílands, ásamt Suthidu drottningu og dóttur sinni, Bajrakitiyabha Mahidol prinsessu. AFP

Fjórkvæntur konungur

BBC, breska ríkisútvarpið, fjallar um málið í dag og meðal annars fyrri hjónabönd konungsins, sem kvæntist fjórðu eiginkonu sinni, Sut­hidu drottn­ingu, í vor. Hann kvæntist fyrstu eiginkonu sinni, Soamsawali prinsessu, árið 1977 og þau skildu 1993.  Önnur eiginkona hans, Sujarinee Vivacharawongse, flúði til Bandaríkjanna árið 1996 og í kjölfarið fordæmdi hann hana opinberlega.

Suthida Taílandsdrottning.
Suthida Taílandsdrottning. AFP

Árið 2014 svipti hann þriðju eiginkonu sína, Srirasmi Suwadee, öllum titlum og meinaði henni aðgang að höll þeirra. Ekki er vitað um afdrif hennar. Sonur þeirra, sem nú er 14 ára, hefur síðan þá verið alinn upp af föður sínum og foreldrar Srirasmi voru handteknir fyrir óvirðingu gagnvart konungsfjölskyldunni. 

Sýnir misnotkun valds

Rama X varð konungur eftir að faðir hans, Bhumi­bol Adulya­dej, lést árið 2016.  Í umfjöllun BBC er rætt við Tamara Loos, sem er prófessor í sögu og Taílandsfræðum við Cornell-háskóla. Hún segir að með framferði sínu sé konungur að senda skýr skilaboð. „Þau eru að hann sé ósnertanlegur og að þeir, sem falla í ónáð hjá honum, hafi ekkert vald yfir eigin örlögum,“ segir Loos. „Allar hans gerðir, hvort sem þær snúa að efnahagsmálum, varnarmálum eða eigin fjölskyldu, sýna hömlulausa misnotkun valds,“ bætir Loos við.

Pavin Chachavalpongpun, aðstoðarprófessor í suðurasískum fræðum við háskólann í Kyoto í Japan, segir í samtali við BBC að alls óvíst sé hvað bíði nú hjákonunnar fyrrverandi. „Við höfum enga hugmynd um það,“ segir Pavin og bætir við að ólíklegt sé að það verði nokkurn tímann gert opinbert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert