NBA-stjarna segir að Erdogan sé vondur maður

Enes Kanter er einn fjögurra Tyrkja sem leika í NBA-deildinni …
Enes Kanter er einn fjögurra Tyrkja sem leika í NBA-deildinni á þessu tímabili. AFP

Tyrkneski NBA-leikmaðurinn Enes Kanter, sem spilar fyrir Boston Celtics, fordæmdi í dag aðgerðir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta og aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands. Í viðtali við CNN sagði tyrkneski leikmaðurinn að Erdogan skeytti ekki um mannréttindi og væri „tvímælalaust vondur maður“.

Kanter er einn fjögurra Tyrkja sem leika í NBA-deildinni í körfubolta, en hann er álitinn glæpamaður af stjórnvöldum í heimalandi sínu vegna stuðnings hans við Fethullah Gülen, klerkinn sem ríkisstjórn Tyrklands segir ábyrgan fyrir skipulagningu valdaránstilraunarinnar í Tyrklandi árið 2016. Tyrkneskar sjónvarpsstöðvar sýna ekki NBA-leiki þar sem Kanter tekur þátt.

„Ég er að reyna að vera rödd alls þessa saklausa …
„Ég er að reyna að vera rödd alls þessa saklausa fólks sem hefur ekki slíka,“ sagði Kanter í viðtali við CNN í dag. AFP

„Ég á marga kúrdíska vini og þeir eru frábært fólk,“ sagði Kanter. „Það sem er að gerast er mannlegur harmleikur, þar sem fjöldi saklausra manna, kvenna, barna og ungbarna eru að láta lífið,“ bætti hann við.

Kanter sagði að í Tyrklandi væri ekkert lýðræði, tjáningarfrelsi né trúfrelsi og sagðist hann ætla að halda áfram að nota rödd sína sem íþróttastjarna til þess að vekja máls á þessum málum, en hann hefur áður kallað Erdogan „Hitler 21. aldarinnar.“

„Ég er að reyna að vera rödd alls þessa saklausa fólks sem hefur ekki slíka,“ sagði Kanter.

„Þetta er mjög sorglegt, því þetta er landið mitt. Ég elska landið mitt,“ sagði Kanter, sem er á „rauða listanum“ hjá alþjóðalögreglunni Interpol að beiðni tyrkneskra yfirvalda. Það þýðir að hann gæti verið handtekinn fari hann út fyrir Bandaríkin. Í maí 2017 var Kan­ter til dæmis stöðvaður á flug­velli í Rúm­en­íu eft­ir að sendi­ráð Tyrk­lands í land­inu fyr­ir­skipaði að vega­bréf hans yrði gert ógilt. Hann komst til Banda­ríkj­anna degi síðar. 

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert