Árásarmaðurinn tengist hægri öfgahópum

Á fram­h­urð sjúkra­bíls­ins má sjá göt eft­ir byssu­kúl­ur, en maður­inn …
Á fram­h­urð sjúkra­bíls­ins má sjá göt eft­ir byssu­kúl­ur, en maður­inn sem stal bíln­um skipt­ist á skot­um við lög­reglu eft­ir að tek­ist hafði að stöðva hann. AFP

Karlmaður, sem stal sjúkrabíl í Ósló í morgun og ók honum viljandi á vegfarendur er 32 ára gamall Norðmaður. Maðurinn og kona, sem talin er tengjast málinu, hafa tengsl við hægrisinnaða öfgahópa. 

Þetta kom fram á blaðamannafundi Óslóarlögreglunnar sem haldinn var rétt í þessu.

Maðurinn var vopnaður haglabyssu og Uzi- hríðskotabyssu og ók viljandi upp á gangstéttirnar áður en lögreglu tókst að stöðva hann með því að skjóta á dekk sjúkrabílsins. Í kjölfarið skiptust maðurinn og lögregla á skotum, uns tókst að handsama hann. Lögregla fann fíkniefni í sjúkrabílnum.

Hann er nú í haldi lögreglu vegna tilraunar til manndráps.  

Á fundinum sagði lögregla að maðurinn hefði margoft áður komist í kynni við lögreglu og að það sama gilti um 25 ára gamla konu sem var eftirlýst vegna málsins, en fannst fljótlega í verslunarmiðstöð í Ósló. Hún er einnig norsk.

Á fundinum kom fram að ofsaaksturinn hafi ekki verið skilgreindur sem hryðjuverk. 

Maður­inn ók á nokkra veg­far­end­ur, þeirra á meðal sjö mánaða gamla tví­bura, sem voru í barna­vagni, og móður þeirra sem ók vagn­in­um.  Í frétt NRK, norska ríkisútvarpsins, seg­ir að börn­in séu lít­ils­hátt­ar slösuð eft­ir ákeyrsl­una.

mbl.is