Fundar með stjórnvöldum í Írak

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna, Mark Esper, kom til Bagdad í dag þar sem hann hyggst funda með íröskum kollega sínum vegna mögulegs flutnings bandarískra hermanna frá Sýrlandi til Íraks.

Ríkisstjórn Íraks greindi frá því í gær að hermennirnir sem hefðu verið kallaðir frá Sýrlandi hefðu ekki leyfi til að dvelja í Írak.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað í byrjun október að bandarískir hermenn yrðu fluttir frá norðurhluta Sýrlands sem gerði Tyrkjum kleift að ráðast gegn Kúrdum á svæðinu.

Esper sagði fyrr í vikunni að hermennirnir sem fluttir væru frá Sýrlandi myndu dvelja í stutta stund í Írak. Bandarískir hermenn væru nú smátt og smátt að flytja sig frá átakasvæðum í Sýrlandi.

Samkvæmt frétt AFP eru um 5.200 bandarískir hermenn í Írak. Þeir voru kallaðir heim árið 2011 en sendir aftur út til að berjast gegn Ríki íslams árið 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert