Sauragnir annarra geta borið E.coli

Samkvæmt rannsókninni eru óhreinar hendur fólks, sem þvær sér ekki …
Samkvæmt rannsókninni eru óhreinar hendur fólks, sem þvær sér ekki eftir að hafa haft hægðir, algengasta smitleið E.coli-bakteríunnar manna á milli. mbl.is

Fólk sem ekki þvær hendur sínar eftir að hafa gengið örna sinna er líklegasta smitleið E.coli-bakteríunnar. Sauragnir geta auðveldlega borist af óþvegnum höndum og upp í munn annarra og þannig sýkt þá. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birt er í læknatímaritinu Lancet. 

Greint er frá þessum niðurstöðum á vef breska ríkisútvarpsins, BBC. Þar segir að margar tegundir séu til af E.coli. Flestar þeirra séu tiltölulega skaðlausar, en aðrar geti valdið alvarlegum sjúkdómum. E. coli er algengasta ástæða blóðeitrunar á Englandi. Þá getur sú tegund E.coli-baktería sem heita ESBL valdið alvarlegum sýkingum

Í rannsókninni voru 20.000 saursýni og 300 blóðsýni rannsökuð, auk mörg hundruð sýna úr dýrum, sorpi og kjöti af ýmsum dýrum. Ein tegund E.coli-bakteríunnar fannst í saursýnum fólks.

David Livermore, prófessor við læknaháskólann í Norwich, sem leiddi rannsóknina segir í samtali við BBC að vissulega sé mikilvægt að gæta að hreinlæti við meðferð matar til að hindra E.coli-sýkingar, einkum þegar verið sé að meðhöndla hrátt kjöt. „En, varðandi þessa tegund E.coli, ESBL, er það mikilvægasta að fólk þvoi hendur sínar eftir að hafa haft hægðir.“

mbl.is