Talin hafa smám saman myrt dóttur sína

AFP

Bandarísk kona, Kelly Renee Turner, hefur verið ákærð fyrir að myrða dóttur sína, fjársvik og þjófnað í tengslum við meint veikindi dóttur hennar sem lést árið 2017.

Dóttir Turner, Olivia Gant, var sjö ára þegar hún lést. Turner hafði haldið því fram að dóttir hennar væri alvarlega veik. Hóf hún að skrifa um meint veikindi dóttur sinnar á netið árið 2011 sem vakti fljótlega mikla athygli. Veikindi dóttur hennar versnuðu smám saman að sögn Turners sem hélt því fram að stúlkan þjáðist af vaxandi fjölda alvarlegra sjúkdóma.

Fjársöfnun fór fram fyrir stúlkuna og góðgerðasamtök reiddu fram mikla fjármuni og sáu til þess að hún gæti gert það sem hana langaði til áður en hún segði skilið við þennan heim. Turner gekk á milli lækna og fullyrti að stúlkan hefði hin og þessi einkenni og krafðist þess að gerðar yrðu alls kyns rannsóknir á henni. Var stúlkan í hjólastól undir það síðasta og nærðist um slöngu.

Fjöldi lækna, sem Turner leitaði til, hafa sagt að þeir hafi aldrei fundið neitt sem bent hafi til þess að stúlkan þjáðist af þeim sjúkdómum sem móðir hennar vildi meina. Lík stúlkunnar var grafið upp og það krufið og ekkert kom fram við krufninguna sem staðfesti fullyrðingar Turner um meint veikindi dóttur hennar.

Saksóknarar telja að Turner, sem býr í Colorado-ríki, hafi verið smám saman að myrða dóttur sína og að hún hafi logið til um meint veikindi hennar vegna athyglinnar sem það skilaði og þeirrar fjárhagslegu aðstoðar sem hún naut frá góðgerðarsamtökum.

Fréttavefur bandaríska dagblaðsins Washington Post greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert