Yfirheyrt í Óslóarmálinu í dag

Frá vett­vangi í Ósló þar sem lög­regla náði mann­in­um.
Frá vett­vangi í Ósló þar sem lög­regla náði mann­in­um. AFP

Yfirheyrslur munu hefjast í dag yfir tveimur Norðmönnum, karli og konu, vegna ofsaaksturs hins fyrrnefnda á sjúkrabíl um götur Óslóarborgar í gær með þeim afleiðingum að nokkrir slösuðust. Sjö mánaða gamlir tvíburar sem maðurinn ók á eru á batavegi. 

Karlmaðurinn sem er 32 ára er í haldi lögreglu vegna tilraunar til manndráps, eftir að hann stal sjúkrabílnum og ók, að því er talið er vera vísvitandi, á vegfarendur. Talsmenn Óslóarlögreglunnar sögðu á blaðamannafundi í gær að maðurinn tengdist hægriöfgahópum, en lögmaður hans neitar því. Konan er 25 ára og er í haldi lögreglu vegna ólöglegrar meðferðar vopna.

Var með haglabyssu og hríðskotabyssu

Maðurinn var handtekinn um hádegisbilið í gær, en þá hafði lögregla reynt að stöðva för hans, m.a. með því að skjóta í dekk sjúkrabílsins. Að lokum ók lögreglubíll inn í hlið bílsins. Maðurinn var með haglabyssu og Uzi-hríðskotabyssu, ásamt talsverðu magni fíkniefna. Hann hefur ítrekað komist í kast við lögin og hlotið nokkra dóma, m.a. fyrir hótanir, ólöglega notkun vopna, fíkniefnabrot, skemmdarverk og þjófnaði.

Meðal þeirra sem maðurinn ók á í sjúkrabílnum var barnavagn sem í voru sjö mánaða gamlir tvíburar. Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins, NRK eru þeir enn á sjúkrahúsi, þangað sem þeir voru fluttir, og heilsast þeim vel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert