Á meira sameiginlegt með Mr. Bean en James Bond

„Rússar segjast hafa handsamað James Bond í njósnaleiðangri. Hið rétta …
„Rússar segjast hafa handsamað James Bond í njósnaleiðangri. Hið rétta er að þeir numu Mr. Bean á brott úr fríi,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Whelan sem hann las upp í dómsal. AFP

Banda­ríkjamaður­inn og fyrrverandi sjóliðinn Paul Whel­an, sem var handtekinn í Moskvu fyrir tíu mánuðum og sakaður um njósnir, segir að hann eigi meira sameiginlegt með barnalega ærslabelgnum Mr. Bean frekar en viðmótsþýða einkaspæjara hennar hátignar, James Bond. 

Whelan hefur setið í varðhaldi í Rússlandi grunaður um njósn­ir og var í morg­un úr­sk­urðaður í tveggja mánaða áfram­hald­andi gæslu­v­arðhald. Rússnesk yfirvöld segja hanna hafa verið gripinn glóðvolgan með ríkisleyndarmál á USB-drifi. 

Líkti sjálfum sér við Mr. Bean í fríi

Þegar dómari las úrskurðinn í dómsal í morgun neitaði Whelan að hafa hljóð og las upp yfirlýsingu úr fangaklefanum sem komið var fyrir í dómsalnum. „Rússar segjast hafa handsamað James Bond í njósnaleiðangri. Hið rétta er að þeir numu Mr. Bean á brott úr fríi,“ sagði Whelan meðal annars og vísaði þannig í tvo af þekktustu hetjum Bretlands, þó ólíkar séu. 

Whel­an var hand­tek­inn þar sem hann sótti brúðkaup hjá banda­rísk­um vini sín­um og rúss­neskri eig­in­konu hans í Moskvu 28. des­em­ber á síðasta ári. 

Sam­kvæmt frétt AFP er hann sakaður um að geyma rík­is­leynd­ar­mál. Hann hafi verið hand­tek­inn með USB-drif í fór­um sín­um og á því hafi fund­ist nafna­listi. Whelan fullyrðir að vinur hans hafi komið USB-drifinu fyrir. Verði Whel­an fund­inn sek­ur bíður hans allt að 20 ára fang­elsis­vist.

Whel­an, sem er einnig með kanadískan, írskan og breskan ríkisborgararétt, sagði við frétta­mann AFP í Moskvu að hann teldi sig vera notaðan sem skipti­mynt til að fá rúss­neska fanga sem eru í haldi vest­an­hafs heim. Hann sagði auk þess að málsmeðferðin gegn sér væri ekki eðli­leg.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert