Kærir Weinstein og félaga fyrir þöggun

Rose McGowan var ein af fyrstu konunum sem sökuðu Weinstein …
Rose McGowan var ein af fyrstu konunum sem sökuðu Weinstein um nauðgun. AFP

Leikkonan Rose McGowan hefur kært Harvey Weinstein, fyrrverandi lögmann hans og einkaspæjarastofu og sakar þessa aðila um að reyna að þagga niður í henni. McGowan var fyrsta konan til að stíga opinberlega fram og saka Weinstein um nauðgun í apríl 2017. Þetta kemur fram á BBC

Hún heldur því fram að þessir einstaklingar hafi unnið markvisst að því að þagga niður í henni eftir að fréttist að hún ætlaði að skrifa bók árið 2016 þar sem hún lýsir meintri nauðgun. Bókin, Brave, kom engu að síður út í fyrra.  

McGowan heldur því fram að Weinstein hafi nauðgað henni árið 1997 á hótelherbergi þegar kvikmyndahátíðin Sundance Film Festival stóð yfir. 

Kæran snýr að brotum á friðhelgi einkalífs, fjárkúgun og svikum og er á hendur, sem fyrr segir, Weinstein, lögmönnum hans tveimur, þeim David Boies og Lisa Bloom, auk einkaspæjarastofunnar Black Cube. 

Weinstein vísar öllum ásökunum á bug. 

„Þetta mál snýst um hvernig einn áhrifamesti maðurinn og hans fylgdarlið reyna að þagga niður í þolanda kynferðisbrots. Þetta sýnir hugrakkar konur og blaðamenn sem neita að láta þagga niður í sér og vilja afhjúpa sannleikann,“ segir lögmaður hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert