„Bandarísk sókn“ hafin á Grænlandi

Ferðamenn fylgjast með grænlenskum trumbudansara sem tók á móti þeim …
Ferðamenn fylgjast með grænlenskum trumbudansara sem tók á móti þeim þegar þeir komu til Kulusuk á Grænlandi. Ferðamennirnir fóru m.a. í kajakaferðir til að skoða ísjaka og í göngur í stórbrotnu landslagi. AFP

Aðalráðgjafi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fleiri bandarískir embættismenn hafa verið í Nuuk, höfuðstað Grænlands, síðustu daga og danskir stjórnmálaskýrendur telja líklegt að markmiðið með heimsókninni sé að auka áhrif Bandaríkjanna á eyjunni.

Nokkrir fréttaskýrendur hafa leitt getum að því að stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafi einsett sér að „vinna hug og hjarta“ Grænlendinga með það fyrir augum að fá þá til að segja skilið við Danmörku, hugsanlega til að verða hluti af Bandaríkjunum.

„Kaupin lögð á ís“

Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði til í ágúst að Bandaríkin keyptu Grænland og hann aflýsti ferð til Kaupmannahafnar, sem ráðgerð hafði verið í byrjun september, eftir að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, neitaði að ræða tillöguna. Kristian Mouritzen, fréttaskýrandi danska blaðsins Berlingske, segir að því fari fjarri að skyndilegur áhugi Trumps á Grænlandi sé horfinn. Stjórn forsetans ætli að ná fram markmiðum hans með öðrum aðferðum.

AFP

„Kaupin hafa verið lögð á ís. Núna vilja Bandaríkjamenn auka viðveru sína á Grænlandi til að hafa bein samskipti við Grænlendinga og sneiða hjá Danmörku með það fyrir augum að auka smám saman áhrif sín á þessari stóru eyju. Þetta er ákvörðun sem veldur óróa í Danmörku vegna þess að samstarfsríki landsins í NATO er greinilega að vinna gegn fullveldi Danmerkur. Það er ekkert minna,“ skrifaði Mouritzen.

„Bolabítur“ Pompeos í Nuuk

Grænlenski fréttamiðillinn Sermitsiaq segir að Ulrich Brechbuhl, aðalráðgjafi bandaríska utanríkisráðuneytisins, hafi farið fyrir hópi bandarískra embættismanna sem hafi rætt við grænlenska ráðamenn í Nuuk síðustu þrjá daga. Á meðal gestanna voru einnig Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn, og nokkrir embættismenn í utanríkisráðuneyti og þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna.

Þeir ræddu meðal annars við Kim Kielsen, formann grænlensku landstjórnarinnar, og þrjú önnur sem eru í landstjórninni: Vittus Qujaukitsoq, ráðherra fjármála, Ane Lone Bagger, sem fer með mennta-, menningar-, kirkju- og utanríkismál, og Ruth Lindhardt, sem fer m.a. með húsnæðis- og byggðamál. Gestirnir létu í ljós áhuga á að auka samstarf Bandaríkjanna við Grænland, meðal annars á sviði viðskipta, uppbyggingar innviða, fjárfestinga, menntamála og rannsókna, að sögn Sermitsiaq.

Ulrich Brechbuhl er þriðji áhrifamesti embættismaður utanríkisráðuneytisins í Washington og Berlingske lýsir honum sem „bolabít“ Mike Pompeos, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Brechbuhl á að sjá til þess að stefnu Trumps forseta og Pompeos sé framfylgt í ráðuneytinu.

„Bandarísk sókn á Grænlandi er í fullum gangi,“ sagði Berlingske um viðræðurnar í Nuuk í frétt undir fyrirsögninni: „Trump hefur sent bolabít Pompeos til Grænlands – og því fylgir sprengihætta.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert