Keypti bílastæði á milljón dollara

Skýjakljúfar eru algeng sjón í Hong Kong. Bílastæðið er í …
Skýjakljúfar eru algeng sjón í Hong Kong. Bílastæðið er í einum þeirra en það má með sanni segja að verðið á því hafi verið „sky high“. AFP

Mögulegt samdráttarskeið er yfirvofandi í kjölfar margra mánaða ofbeldisfullra mótmæla í Hong Kong en það kom ekki í veg fyrir undarleg viðskipti sem áttu sér stað þarlendis nýverið. Þá var eitt bílastæði selt fyrir næstum eina milljón bandaríkjadala eða því sem nemur 125 milljónum íslenskra króna. 

Þessi óskiljanlega upphæð var greidd til kaupsýslumannsins Johnny Cheung Shun-yee. Hún beinir athygli að misskiptingu auðs í Hong Kong. Þessi misskipting er ein af ástæðum þess að mótmælendur hafa arkað um götur Hong Kong í tæplega fimm mánuði. Mótmælendur hafa meðal annars mótmælt í fjármálahverfi ríkisins þar sem einn af hverjum fimm lifir undir fátæktarmörkum. 

Upphæðin sem greidd var fyrir bílastæðið jafnast á við 30 meðalárslaun íbúa Hong Kong. Bílastæðið er staðsett í The Center sem er fimmti hæsti skýjakljúfur Hong Kong. Byggingin varð dýrasta skrifstofubygging heims árið 2017 þegar ríkasti maður Hong Kong seldi hana fyrir meira en fimm milljarða bandaríkjadala.

Búist er við því að hagvöxtur í Hong Kong þetta árið verði sá versti frá árinu 2009, eða 0-1%. Verð á atvinnu- og íbúðarhúsnæði hefur verið knúið upp af innstreymi peninga frá auðugum kínverskum fjárfestum og verktökum af meginlandi Kína. 

Þó yfirstandandi mótmæli beinist sérstaklega að framsalsfrumvarpi sem nú hefur verið dregið til baka og hatri gagnvart stjórnvöldum og lögreglu þá eru mótmælendur einnig ævareiðir vegna mikillar misskiptingar auðs í Hong Kong. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert