Milljón manns krefst afsagnar forsetans

Áætlað er að nærri milljón manns hafi mótmælt í Santiago …
Áætlað er að nærri milljón manns hafi mótmælt í Santiago í dag og eru mótmælin þau fjölmennustu til þessa. AFP

Talið er að hartnær milljón manns hafi safnast saman á götum Santiago, höfuðborgar Síle, í dag. Þetta eru fjölmennustu mótmælin hingað til en íbúar hafa krafist afsagnar Sebastian Piñera, forseta landsins og krafist aðgerða í efnahagsmálum.

Átök brut­ust út fyr­ir viku síðan vegna hækkaðs verðs á lest­armiðum. Hækk­un­in var dreg­in til baka en það dugði ekki til að lægja mót­mæla­öld­urn­ar og hef­ur al­menn­ing­ur síðan mót­mælt lág­um laun­um, mis­skipt­ingu og spill­ingu.

Átján hafa látið lífið síðan mót­mæl­in brut­ust út, þar á meðal fjög­urra ára gam­alt barn. 

Mótmælendur fjölmenntu á götur borgarinnar og skörtuðu þjóðfánanum og sungu baráttusöngva frá 8. og 9. áratugnum, þegar Augusto Pinochet var einræðisherra í Síle. 

Ríkisstjórinn í Santiago, Karla Rubilar, lýsir deginum í dag sem sögulegum. Hún hrósar mótmælendum fyrir friðsamlega framgöngu. 

„Við köllum eftir réttlæti, hreinskilni og ríkisstjórn sem aðhyllist siðferðileg gildi,“ segir Fransisco Anguitar, einn mótmælendanna, í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Mótmælin hafa stigmagnast síðustu daga.
Mótmælin hafa stigmagnast síðustu daga. AFP

Piñera hefur lagt til fé­lags­leg­ar um­bæt­ur með það að mark­miði að binda enda á mót­mæl­in í land­inu. Meðal þess sem hann lagði til var að skatt­ar á raf­magn yrðu fryst­ir, lág­marks­líf­eyr­ir hækkaði um 20% og að ríkið stæði straum af kostnaði við dýr­ar læknaaðgerðir.

Í dag bað Piñera þingmenn að samþykkja tillögur hans sem fyrst í stað þess að rökræða þær í þaula. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert