Lögmaður Trump hringdi óvart í blaðamann

Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Donald Trump.
Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Donald Trump. AFP

Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta, skildi óvart eftir tvenn talhólfsskilaboð á farsíma rannsóknarblaðamanns NBC fréttaveitunnar. 

Í skilaboðunum talar Giuliani um að þurfa peninga og fer hörðum orðum um demókratann Joe Biden. 

Demókratar á Bandaríkjaþingi sendu Giuliani vitnastefnu fyrr í mánuðinum og kröfðust þess að fá endurrit af samtölum hans við fyrrverandi ríkissaksóknara Úkraínu. 

Giuliani hefur viðurkennt að hafa beðið úkraínska embættismenn um að rannsaka Biden og son hans vegna ásakana sem hafa að mestu verið hraktar. 

Rich Shapiro, rannsóknarblaðamaður NBC, segist samkvæmt BBC, hafa fengið tvenn talhófsskilaboð frá Giuliani á mánaðartímabili. 

Shapiro lýsti skilaboðunum sem afleiðingu af „því sem þekkt er, í talmáli, sem rassvasasímtal“. 

Fyrra símtalið átti sér stað 28. september, en Shapiro hafði tekið viðtal við Giuliani daginn áður. Talhólfsskilaboðin voru þriggja mínútna löng og gagnrýndi Giuliani Biden allan tímann í samtali við ótilgreindan karlmann. 

Seinna símtalið átti sér stað kvöldið 16. október og í talhólfsskilaboðunum ræðir Giuliani aftur við ótilgreindan karlmann. 

„Við þurfum nokkur hundruð þúsund,“ sagði Giuliani á einum tímapunkti í samtalinu sem Shapiro segir að hafi snúist um Bahrain og óþekktan mann að nafni Robert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert