Neyddust til að aflýsa Brexit-strandpartýi

Brexit-áhrifin eru víða. Skipuleggjendur Brexit-strandpartýis í Amsterdam hafa neyðst til …
Brexit-áhrifin eru víða. Skipuleggjendur Brexit-strandpartýis í Amsterdam hafa neyðst til að fresta gleðinni. AFP

Skipuleggjendur strandpartýs í Amsterdam sem átti að fara fram 31. október hafa neyðst til að aflýsa gleðinni. Efnt var til partýsins í þeim tilgangi að „kveðja Breta með táknrænum hætti,“ en til stóð að Bretar segðu skilið við sambandið í lok þessa mánaðar. 

Í gær samþykktu leiðtog­ar Evr­ópu­sam­bands­ins að fresta út­göngu Bret­lands úr sam­band­inu. Ákvörðun um hversu lang­ur frest­ur­inn verður ræðst hins veg­ar ekki fyrr en eft­ir helgi. 

Þúsundir höfðu boðað komu sína í Brexit-strandpartýið sem átti að halda í strandklúbbnum Wijk aan Zee, skammt frá Amsterdam. Til stóð að bjóða upp á ýmsar ljúffengar evrópskar veitingar, til að mynda hollenskt snakk, franskt vín og þýskan bjór. 

Frestun á Brexit er þó ekki eina ástæðan fyrir frestun partýsins, en skipuleggjendum gekk erfiðlega að fá fyrirtæki til að leggja til veitingar í partýið með svo stuttum fyrirvara. Partýið byrjaði sem saklaust grín á Facebook í ágúst. 

Fjöldi fólks hefur greitt aðgangseyrinn í partýið, 19,73 evrur, sem vísar í árið sem Bretland gekk í ESB, og mun það fá endurgreitt á næstu dögum. 

Skipuleggjendurnir eru samt sem áður staðráðnir í að halda Brexit-strandpartýið, líklega á næsta ári, þegar Bretland gengur loks úr sambandinu.

mbl.is