Ómæld virðing borin fyrir slökkviliði

Slökkviliðsmenn í Síle eru sjálfboðaliðar og fá ekki greitt fyrir …
Slökkviliðsmenn í Síle eru sjálfboðaliðar og fá ekki greitt fyrir vinnu sína. Hér slökkva þeir eld sem kviknaði í apóteki í mótmælunum í síðustu viku. AFP

Myndband sem birt var á Reddit í gær og hefur vakið mikla athygli, sýnir glöggt hve mikil virðing er borin fyrir slökkviliðsfólki í Síle. Slökkviliðsmenn í landinu eru sjálfboðaliðar og fá ekki greitt fyrir vinnu sína. 

Myndbandið sýnir hvernig íbúar víkja fyrir slökkviliðinu og greiða leiðina með því að rýma göturnar sem íbúar nota til að mótmæla stjórnvöldum. 

Slökkviliðið í Síle rekur starfsemi sína með frjálsum framlögum og eru álitnar hetjur af borgurum. 

Á Reddit-þráðinum kemur fram að jafnvel þó að Sílebúar mótmæli nú yfirvöldum og beri litla virðingu fyrir stjórnmálamönnum og óeirðarlögreglu sem beitt hefur miklu valdi gegn mótmælendum, þá sé alltaf borin ómæld virðing fyrir slökkviliðinu, sama hvað á bjátar. 

Átök brutust út í Síle fyrir rúmlega viku síðan vegna hækkaðs verðs á lestarmiðum. Hækkunin var dregin til baka, en það dugði ekki til að lægja mótmælaöldurnar. Hartnær milljón manns safnaðist saman á götum höfuðborgarinnar Santiago í gær og mótmælti spillingu, misskiptingu og lágum launum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert