Þingið fær óritskoðaða skýrsluna

Sérstakur saksóknari Robert Mueller.
Sérstakur saksóknari Robert Mueller. AFP

Alríkisdómari í Washington komst að þeirri niðurstöðu í dag að bandaríska dómsmálaráðuneytinu sé skylt að afhenta þinginu óritskoðað afrit af rannsóknarskýrslu Roberts Muellers, sérstakstaks saksóknara.

Dómarinn, Beryl Howell, gaf ráðuneytinu frest fram á miðvikudag til að afhenda skýrslu Muellers um Rússarannsóknina. Hlutar hennar voru afmáðir þegar hún var birt fyrr á árinu. Howell sagði að þar væri mögulega að finna upplýsingar varðandi rannsóknir þingnefnda á meintum embættisbrotum Donald Trump forseta.

Demókratar hafa krafist þess frá því að skýrslan var gerð opinber í apríl að þeir fengju aðgang að henni óritskoðaðri. Jerry Nadler, full­trúa­deild­arþingmaður demó­krata, hefur meðal annars sagt að yfirstrikaðar upplýsingar í skýrslunni virðist þýðingarmiklar.

Samkvæmt erlendum fréttamiðlum er úrskurður alríkisdómarans frá því í gærkvöld til skoðunar hjá dómsmálaráðuneytinu.

Trump hef­ur gagn­rýnt Mu­ell­er síðan rann­sókn hans hófst og kallaði skýrsl­una meðal ann­ars „norna­veiðar“ en rannsóknin sneri í upphafi að afskiptum Rússa af forsetakosningum í Bandaríkjunum fyrir þremur árum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert