Greta Thunberg íhugar að hætta á Facebook

Greta Thunberg íhugar að hætta á Facebook og gagnrýnir hún ...
Greta Thunberg íhugar að hætta á Facebook og gagnrýnir hún miðilinn fyrir að láta hatursáróður viðgangast á samfélagsmiðlinum. AFP

Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg segir Facebook vel geta tekið á hatursorðræðu og falsfréttum en viljinn sé einfaldlega ekki til staðar. 

Thunberg íhugar að hætta á Facebook þar sem hún segir viðstöðulausar lygar og samsæriskenningar um hana fá að viðgangast á miðlinum án þess að nokkuð sé gert. Þá séu dæmi um að fólk nýti sér nafn hennar til að nálgast stjórnmálaleiðtoga og biður hún hlutaðeigandi afsökunar í færslu á Twitter. 

„Það væri auðveldlega hægt að stoppa þetta ef Facebook hefði viljann til þess,“ skrifar Thunberg í færslu á Facebook-síðu sinni. Hún segir það mikið áhyggjuefni að Facebook leyfi hatursorðræðu að viðgangast og þá segir hún skort á staðreyndavöktun einnig mikið áhyggjuefni. 

Í færslunni deilir Thunberg myndskeiði af fundi fjármálanefndar Bandaríkjaþings þar sem Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, sat fyrir svörum. Hann var meðal annars spurður um ritskoðun pólitískra auglýsinga, falsfréttir, barnaklám og rafmyntina Libra sem Facebook hyggst koma á fót. Zuckerberg þótti gefa frekar loðin svör á fundi nefndarinnar. 

„Mér finnst það óhugnanlegt að Facebook vill ekki axla ábyrgð,“ segir Thunberg. 

Thunberg hefur verið í Bandaríkjunum frá því í september þar sem hún hélt erindi á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Óvíst er hvenær og hvernig hún fer aftur heim til Svíþjóðar. Hún hefur ferðast um á rafmagnsbíl og þessa dagana er hún stödd í Kanada og tók hún meðal annars þátt í loftslagsverkfalli í Vancouver á föstudaginn. 

Thun­berg ferðaðist með kapp­sigl­ing­ar­skút­unni Malizia II yfir Atlants­hafið í sept­em­ber frá Svíþjóð til New York. Lík­legt þykir að hún noti svipaðan ferðamáta fyr­ir heim­ferðina en ekki er ljóst hvenær af henni verður.

mbl.is

Bloggað um fréttina