Varaði Trump við því að ráða „já-mann“

Donald Trump Bandaríkjaforseti og John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins. …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins. Undir lokin var samstarf þeirra sagt það stirt að þeir ræddust varla við. AFP

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins segir að John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, hafi ekki ráðið við „snilli“ Donald Trump Bandaríkjaforseta. Kelly sagðist hafa varað Trump við því að hann gæti verið kærður fyrir embættisbrot ef eftirmaður hans í starfi hefði ekki bein í nefinu.

Kelly, sem lét af störfum í Hvíta húsinu um áramótin, sagði á ráðstefnu í gær að honum liði illa yfir því að hafa yfirgefið forsetann vegna þess að Trump hafi ekki fylgt hans ráðleggingum.

„Hvað sem þú gerir, ekki ráða „já-mann“ — einhvern sem segir þér ekki sannleikann,“ sagðist Kelly hafa sagt við Trump þegar hann kvaddi Hvíta húsið.

„Ef þú gerir það þá verður þú kærðir fyrir embættisbrot,“ bætti Kelly við.

Þingnefndir Bandaríkjaþings rannsaka hvort Trump hafi framið embættisbrot með því að þrýsta á forseta Úkraínu að rannsaka Joe Biden og gera Trump þar með pólitískan greiða fyrir forsetakosningarnar vestanhafs á næsta ári.

„John Kelly sagði þetta aldrei, hann sagði þetta aldrei,“ sagði Trump þegar CNN spurði hann um ummæli Kelly. 

„Ef hann hefði sagt þetta hefði ég hent honum út af skrifstofunni. Hann vill bara komast aftur í slaginn eins og allir aðrir,“ bætti Trump við.

Stephanie Grisham, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagðist staðfesta orð Trump. „Ég vann með John Kelly og hann var algjörlega ófær um að ráða við snilli okkar frábæra forseta.“

mbl.is