Eignaðist barn tæplega sjötug

Nýfætt barnið á 42 ára bróður.
Nýfætt barnið á 42 ára bróður. AFP

67 ára gömul kona fæddi barn í Kína, samkvæmt tilkynningu frá sjúkrahúsi þar í landi í morgun. Nýbakaðir foreldrar segjast vera elsta parið til að eignast barn með náttúrulegum hætti.

Konan Tian fæddi barnið í borginni Zaozhuang á föstudag en það var tekið með keisaraskurði.

68 ára eiginmaðurinn Huang sagði eftir fæðinguna að barnið væri gjöf frá himnaguðunum.

Nafn barnsins „Tianci“ þýðir einmitt gjöf frá himnum, að því er fram kemur í frétt AFP. Nýfætt barnið á tvö hálfsystkini sammæðra, þar á meðal bróður sem er 42 ára.

Notendur á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo gagnrýndu foreldrana harðlega vegna fæðingarinnar.

„Þau eru of sjálfselsk. Fólkið er orðið það gamalt að þau munu ekki geta séð um barnið og þá þurfa eldri systkini að gera það,“ skrifaði einn notandi.

Aðrir veltu því fyrir sér hvort Tian og Huan yrðu sektuð fyrir að eiga fleiri en tvö börn en lög í Kína heimila fólki að eignast tvö börn.

mbl.is