Peysa Cobains seld fyrir metfé

Peysa Kurts Cobain sem hann klæddist á Unplugged, órafmögnðum tónleikum …
Peysa Kurts Cobain sem hann klæddist á Unplugged, órafmögnðum tónleikum Nirvana sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni MTV árið 1993. Hún seldist fyrir tæpar 42 milljónir íslenskra króna um helgina. AFP

Peysa Kurt Cobains heitins, söngvara Nirvana, seldist á 334.000 bandaríkjadollara,  tæpar 42 milljónir íslenskra króna á uppboði um helgina. Peysunni klæddist Cobain við upptökur á Unplugged, órafmögnuðum tónleikum Nirvana, sem sýndir voru á sjónvarsstöðinni MTV árið 1993 og hefur hún ekki verið þvegin síðan. 

Nafn kaupandans hefur ekki verið gert opinbert.

Þessi ólívugræna hneppta og blettótta prjónapeysa með brunabletti eftir sígarettu söngvarans er, að mati Darrens Julien forstjóra uppboðshússins Julien´s sem bauð peysuna upp, „hinn helgi kaleikur allra þeirra flíka sem Cobain klæddist nokkurn tímann á sinni stuttu ævi“, en Cobain og félagar hans í Nirvana eru gjarnan sagðir upphafsmenn „Grunge“-tískunnar.

Seljandinn, Garrett Kletjian sem er eigandi Forty7 Motorsports sem m.a. smíðar kappakstursbíla, keypti peysuna fyrir fjórum árum á 137.500 bandaríkjadollara, sem eru um 17,2 milljónir íslenskra króna. Ljóst er að hann hagnaðist talsvert á að selja peysuna, en gert hafði verið ráð fyrir að hún myndi seljast á 200 - 300.000 dollara.

Hljóðfæri Cobains, vinstrihandargítar af tegundinni Fender Mustang, var einnig boðinn upp á uppboðinu og seldist hann á 340.000 dollara, um 42,5 milljónir íslenskra króna. 

mbl.is