Trump fékk óblíðar móttökur

Donald Trump Bandaríkjaforseti brosti og veifaði þrátt fyrir að viðbrögð ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti brosti og veifaði þrátt fyrir að viðbrögð áhorfenda við því að sjá hann á stórum skjá á vellinum hafi ekki verið sérstök. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fékk heldur óblíðar viðtökur frá áhorfendum á leik Washington Nationals og Houston Astros í lokaúrslitum atvinnumannadeildarinnar í hafnarbolta MLB í gærkvöldi. Baulað var þegar forsetahjónin birtust á risaskjá á vellinum.

Trump brosti hins vegar bara og hélt áfram að veifa, þrátt fyrir að áhorfendur gæfu það til kynna að þeir væru ekki hrifnir af því að sjá hann á skjánum.

Áður en forsetahjónin birtust á skjánum voru birtar myndir af hermönnum og var þeim fagnað.

Trump var sigri hrósandi í gær þegar hann tilkynnti að leiðtogi Ríkis Íslams, Abu Bakr al-Bag­hda­di, hefði fallið í árás Bandaríkjahers á fylgsni hans í Sýrlandi á laugardagskvöld.

Astros vann leikinn og hefur 3:2 forystu í einvígi liðanna en næsti leikur fer fram í Houston.

mbl.is