Hvers vegna skipti Corbyn um skoðun?

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP

Verkamannaflokkurinn er reiðubúinn að styðja það að þingkosningar fari fram í Bretlandi í desember líkt og komið hefur fram en áður hafði flokkurinn ítrekað lagst gegn því að kosningar færu fram. En hvers vegna skipti Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, um skoðun?

Verkamannaflokkurinn hafði áður ítrekað hafnað því að boðað yrði til þingkosninga. Síðast var tillögu Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þess efnis hafnað í gær. Hins vegar höfðu Frjálslyndir demókratar og Skoski þjóðarflokkurinn, sem einnig eru í stjórnarandstöðu eins og flokkur Corbyns, hafið viðræður við ríkisstjórnina um mögulegan stuðning þeirra við að kosningar yrðu í desember.

Tvo þriðju atkvæða í neðri deild breska þingsins þarf til þess að boða til þingkosninga áður en kjörtímabilinu lýkur sem yrði ekki fyrr en árið 2022. Stjórnarandstaðan hafði áður staðið saman gegn því að þingkosningar færu fram en vegna viðræðna Frjálslyndra demókrata og Skoska þjóðarflokksins við ríkisstjórnina var Verkamannaflokkurinn kominn í erfiða stöðu.

Frjálslyndir demókratar og Skoski þjóðarflokkurinn höfðu lagt til að gerðar yrðu breytingar á kosningalögum þannig að aðeins þyrfti einfaldan meirihluta til þess að samþykkja kosningar í desember sem hefði þýtt að ekki þyrfti stuðning Verkamannaflokksins.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins. AFP

Johnson hafði áður ákveðið að fresta atkvæðagreiðslu um útgöngusamning hans við Evrópusambandið og leggja áherslu á að fá kosningar samþykktar. Vonast hann til þess að Íhaldaflokkur hans fái meirihluta í neðri deildinni eftir kosningarnar og að meiri stuðningur verði við útgönguna á nýju þingi.

Skoðanakannanir hafa sýnt Íhaldsflokkinn með mest fylgi og gott forskot á Verkamannaflokkinn sem mælist með næst mest fylgi. Staða Verkamannaflokksins þykir þó ekki sterk fylgislega en á sama tíma benda kannanir til þess að Frjálslyndir demókratar og Skoski þjóðarflokkurinn muni styrkja stöðu sína í kosningunum.

Þannig eru hagsmunir Frjálslyndra demókrata og Skoska þjóðarflokksins annars vegar og Verkamannaflokksins ólíkir hvað varðar fylgi í skoðanakönnunum. Stjórnmálaskýrendur höfðu bent á að ítrekuð andstaða Verkamannaflokksins við kosningar væri farin að skaða stöðu flokksins. Það hefði litið illa út ef kosningar færu fram en hann væri eini flokkurinn sem vildi þær ekki.

Corbyn gaf þá skýringu í dag á stefnubreytingu Verkamannaflokksins að vegna samþykktar Evrópusambandsins á að útgöngu Bretlands úr sambandinu yrði frestað til 31. janúar hefði möguleikinn á að landið færi út án samnings verið settur til hliðar allavega næstu þrjá mánuðina sem þýddi að flokkurinn gæti stutt kosningar.

Hins vegar lá fyrir í gærmorgun að Evrópusambandið hefði samþykkt frestun útgöngunnar til 31. janúar en í gærkvöldi var tillaga Johnsons um þingkosningar engu að síður felld í neðri deildinni einkum fyrir tilstilli Verkamannaflokksins. Fyrir vikið þykir skýringin ekki mjög trúverðug.

mbl.is