Bandaríkjaþing viðurkennir þjóðarmorð Ottómana gegn Armenum

Frá minningarathöfn armenskra ráðamanna um þjóðarmorðin fyrr á þessu ári. …
Frá minningarathöfn armenskra ráðamanna um þjóðarmorðin fyrr á þessu ári. Armenar segja að ofsóknir Ottómana á hendur þeim hafi kostað 1,5 milljónir manna lífið í fyrri heimsstyrjöld. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær með yfirgnæfandi meirihluta ályktun um að viðurkenna þjóðarmorð Ottómana á Armenum, sem átti sér stað í fyrri heimsstyrjöld.

Viðurkenning þjóðarmorðsins hefur vafist mjög fyrir Tyrkjum áratugum saman og því er ávallt tekið fálega af þeirra hálfu þegar erlend ríki viðurkenna þær hörmungar sem beindust gegn Armenum á árunum 1915—1917 sem þjóðarmorð. Armenar segja um það bil eina og hálfa milljón manna hafa látist í ofsóknunum.

Árið 2010 spruttu upp deilur á milli Bandaríkjamanna og Tyrkja vegna þessa sama máls, sem þá var rætt og samþykkt í utanríkismálanefnd þingsins vestra. Tyrkir kölluðu sendiherra sinn heim frá Washington í kjölfarið.

Ályktun um þetta hefur þó ekki komist í gegnum fulltrúadeildina fyrr en nú, og var samþykkt nær samhljóða, en 405 þingmenn samþykktu að viðurkenna þjóðarmorðið og einungis 11 greiddu atkvæði gegn því.

Markleysa og pólitík, segja Tyrkir

NATÓ-ríkin tvö, Bandaríkin og Tyrkland, elda nú grátt silfur vegna aðgerða Tyrklands gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands.

Mevlut Cavusoglu utanríkisráðherra Tyrklands setur samþykktina í það samhengi og hefur lýst því yfir að samþykkt fulltrúadeildarinnar sé hefndaraðgerð vegna þeirra deilna sem eru nú uppi á milli ríkjanna tveggja.

Því sé atkvæðagreiðslan marklaus. Tyrkir taki hið minnsta ekkert mark á því þegar sagan sé misnotuð á skammarlegan hátt í pólitískum tilgangi.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert