Óttast að hundruð kóalabjarna hafi drepist

Kóalabirnirnir á því griðasvæði sem eldar loga á eru sagðir …
Kóalabirnirnir á því griðasvæði sem eldar loga á eru sagðir með einstakt genamengi og mikilvægir fyrir stofn kóalabjarna í Ástralíu. AFP

Óttast er að hundruð kóalabjarna hafi orðið skógareldi að bráð í Nýja-Suður-Wales í Ástralíu í dag. Eldarnir brunnu, og brenna enn, um 250 kílómetra norðan við Sydney, á griðasvæði kóalabjarna.

Dýraverndunarsinnar óttast það versta og hefur AFP-fréttastofan eftir Sue Ashton, forseta kóala-spítala í bænum Port Macquarie, að kóalabirnirnir á þessu svæði séu sérstaklega mikilvægir, þar sem genamengi þessa hóps sé afar sjaldgæft.

Þjóðarharmleikur

„Þetta er þjóðarharmleikur, þar sem þessir kóalabirnir eru svo einstakir,“ segir hún og bætir við að hún og fleiri geti ekki komist að svæðinu til þess að huga að björnunum þar sem slökkvilið er enn að berjast við eldinn.

Ashton lýsir því að kóalabirnir bregðist við skógaeldum á þann hátt að klifra efst í trén og hnipra sig saman í lítinn bolta. „Ef eldurinn fer fljótt í gegn og svíður bara feldi þeirra verður í lagi með þá, feldurinn vex aftur,“ segir Ashton, en hún óttast að því miður hafi margir bjarnanna orðið eldinum að bráð.

Kóalabirnir eru taldir vera um 43.000 talsins í Ástralíu.

mbl.is