Trump gagnrýnir Brexit-samning Johnson

Þeim Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Donald Trump Bandaríkaforseta er …
Þeim Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Donald Trump Bandaríkaforseta er vel til vina. Þeir hittust á þingi Sameinuðu þjóðanna 24. september sl. AFP

„Við viljum eiga viðskipti við Bretland og Bretland vill eiga viðskipti við okkur. En í hreinskilni þá eru sum atriði í samningnum sem takmarka möguleika okkar á að gera viðskiptasamning við Bretland,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti, um Brexit-samning Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, í viðtali við Nigel Farage á útvarpsstöðinni LBC.

BBC greinir frá. 

Trump sagði að án samningins þá gætu ríkin margfaldað viðskipti sín á milli miðað við það sem þau eru núna. Þá skaut hann á Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, og sagði að hann myndi verða lélegur forsætisráðherra.

Reynir að fá vin sinn kjörinn forsætisráðherra

Corbyn hefur svarað fyrir sig og sakaði Trump um að vera skipta sér af væntanlegum þingkosningum í Bretlandi til að fá „vin sinn Boris Johnson kjörinn“ í kosningunum sem verða haldnar 12. desember.

Í ágúst sl. lofaði Trump „mjög stórum viðskiptasamning“ við Bretland og sagði að útganga þess úr Evrópusambandinu yrði eins og að losa sig við akkeri. Í samtali sínu við Farage virtist hann þó ekki fullkomlega sáttur við Brexit-samninginn sem Johnson hefur gert við Evrópusambandið. Verði Johnson áfram forsætisráðherra Bretlands eftir kosningarnar i desember hyggst hann leggja samninginn fyrir breska þingið.

Johnson og Farage verði „óstöðvandi saman“

Hann hrósaði Johnson þó hástert sem og Nigel Farage. „Johnson er frábær náungi og hárrétti maðurinn fyrir Bretland. Þið munið gera stórkostlega hluti saman og saman eruð þið óstöðvandi. Bretland er frábært ríki með mikla möguleika,“ sagði Trump.

Talsmaður breska forsætisráðuneytisins svaraði gagnrýni Trump á samning Johnson og sagði að með honum myndi Bretland „taka aftur stjórn á lagasetningu landsins, viðskiptum, landamærum og fjármagni.“

„Með þessum nýja samningi mun allt Bretland yfirgefa tollasamband Evrópusambandsins sem þýðir að við munum vera frjáls til að semja um okkar eigin tolla- og viðskiptasamninga sem mun verða til hagsbóta fyrir allt Bretland.“

mbl.is

Bloggað um fréttina