Farage vill stofna útgöngubandalag

Nigel Farage.
Nigel Farage. AFP

Nigel Farage, evrópuþingmaður og stofnandi Brexit-flokksins, hefur kallað eftir því að Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, gefist upp á að reyna að fá útgöngusamning sinn við Evrópusambandið samþykktan, og gangi þess í stað í „útgöngubandalag“ með Brexit-flokknum. Samstarf Brexit-flokks og Íhaldsflokks væri „eina leiðin fram“. Tekur hann hér undir hugmyndir Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem sagði í viðtali við Farage á dögunum að bandalag Farage og Johnson yrði „óstöðvandi“.

Farage hefur hótað því að verði ekki af samkomulagi muni flokkur hans bjóða fram mann í „hverju einasta kjördæmi“ í Englandi, Skotlandi og Wales. Það gæti komið Íhaldsflokknum illa enda er Brexit-flokkurinn vís til að laða til sín kjósendur sem ella kysu Íhaldsflokkinn. Íhaldsmenn hafa þó ítrekað tekið fyrir að formlegt bandalag verði myndað við Brexit-flokkinn.

Nýjustu kannanir sýna Íhaldsflokkinn með töluvert forskot á Verkamannaflokkinn, en sumir íhaldsmenn óttast að framganga Brexit-flokksins verði til þess að tvístra útgöngusinnuðum kjósendum og hjálpa Verkamannaflokknum að ná til sín þingsætum.

Á hinum vængnum hafa flokkar hliðhollir áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu, Frjálslyndir demókratar, græningjar og velski þjóðernisflokkurinn, átt í viðræðum um sameiginleg framboð, en í samtali við BBC segir Jonathan Bartley, einn leiðtoga græningja, að viðræðurnar séu „ekkert leyndarmál“. Ekkert hafi þó verið ákveðið enn, fyrir kosningarnar sem fara fram 12. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert