Trump flytur lögheimili sitt frá New York til Flórída

Trump er búinn að flytja lögheimili sitt til Flórída, að …
Trump er búinn að flytja lögheimili sitt til Flórída, að eigin sögn vegna slæmrar framkomu stjórnmálaleiðtoga í New York í sinn garð. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur flutt lögheimili sitt frá Trump-turninum í New York og til Flórída. Hann segist hafa sætt slæmri framkomu stjórnmálaleiðtoga í New York, þrátt fyrir að hafa borgað þar milljónir dollara í skatta og gjöld.

New York Times fjallaði um málið í gær og sagði forsetann hafa flutt lögheimili sitt að Mar-a-Lago setri sínu á Palm Beach í Florída í septembermánuði. Trump staðfesti þetta skömmu síðar, á Twitter.

Stórhýsi Bandaríkjaforseta á Palm Beach í Flórída, Mar-a-Lago. Nýtt lögheimili.
Stórhýsi Bandaríkjaforseta á Palm Beach í Flórída, Mar-a-Lago. Nýtt lögheimili. AFP

Þar sagðist hann ætla að búa í Hvíta húsinu, vonandi í fimm ár til viðbótar, en síðan myndi fjölskyldan setjast að í Flórída. Ástæðan sem hann gefur upp er helst sú að bæði borgarstjórar og ríkisstjórar í New York hafi komið illa fram við hann og segir Trump að fáir hafi fengið verri meðferð af þeirra hálfu.

Trump er fæddur og uppalinn í New York og segir hann að þrátt fyrir að nú sé hann að fara að flytja muni borgin ávallt verða honum hjartfólgin.

De Blasio og Cuomo svara

Stjórnmálamennirnir sem Trump sakar um illgirni í sinn garð, ríkisstjórinn Andrew Cuomo og borgarstjórinn Bill de Blasio, hafa báðir tjáð sig um málið.

„Ekki láta hurðina skellast á þig á leiðinni út eða eitthvað,“ skrifaði borgarstjórinn á Twitter.

Ríkisstjórinn Cuomo sagði að farið hefði fé betra og sakaði forsetann einnig um að hafa svikist undan skattgreiðslum í New York-ríki.

„Það er ekki eins og Trump hafi borgað skatta hérna hvort sem er,“ skrifaði Cuomo á Twitter-síðu sína.

Trump hefur ekki verið mikið fyrir að ræða sín persónulegu skattamál og aldrei gert skattskýrslur sínar opinberar þrátt fyrir áralöng áköll andstæðinga hans á stjórnmálasviðinu þar um.

Hvað sem því líður er ljóst að með flutningi til Flórída mun forsetinn búa við hagfelldara skattaumhverfi, en samkvæmt ónafngreindum heimildarmanni sem vitnað er til í frétt New York Times er skattalegt hagræði aðalástæðan fyrir flutningunum.

Flórída-ríki leggur hvorki á tekjuskatt né erfðaskatt og hefur löngum verið áfangastaður fyrir ríkt fólk af austurströnd Bandaríkjanna sem vill síður greiða þá skatta sem ríkin þar leggja á.

Trump-turninn í New York.
Trump-turninn í New York. AFP
mbl.is