Bjóða Gretu til Madrídar

Greta Thunberg var í Los Angeles í fyrradag þegar spænsk …
Greta Thunberg var í Los Angeles í fyrradag þegar spænsk stjórnvöld svöruðu kalli hennar. AFP

Spænsk stjórnvöld hafa boðið loftslagsaðgerðarsinnanum Gretu Thunberg aðstoð við að komast til Madrídar til þátttöku á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem haldin verður í borginni í byrjun næsta mánaðar. Utanríkisráðherra Spánar, Teresa Ribera, greindi frá þessu á Twitter.

Greta hefur verið á ferðalagi um Ameríku síðustu vikur eftir að hafa ávarpað loftslagsfund í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í september, og vakið mikla athygli.

Upphaflega stóð til að halda loftslagsráðstefnu næsta mánaðar í Síle en horfið var frá því vegna mótmælaöldu sem gengur yfir landið, og þess í stað ákveðið að halda hana í Madríd á Spáni. Þar með var Gretu vandi á höndum, en hún flýgur ekki, eins og þekkt er, af umhverfisástæðum.

Greta biðlaði til fylgjenda sinna á Twitter að hjálpa sér að komast til Madrídar í tæka tíð með umhverfisvænni leiðum. Hún þurfti ekki að bíða lengi því samdægurs svaraði utanríkisráðherra Spánar kallinu og sagði stjórnvöld þar í landi endilega vilja hjálpa henni að komast aftur yfir Atlantshafið. Það yrði „frábært“ að fá hana til Madrídar enda hefði hún hjálpað til við að vekja máls á loftslagsvandanum, opna hug fólks og hvatt til aðgerða. Ekki liggur þó fyrir hvernig spænsk stjórnvöld munu aðstoða hana en ljóst er að hún má lítinn tíma missa. Skipsferð yfir Atlantshafið tekur enda nokkrar vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert