Boris biðst afsökunar á Brexitfrestun

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, biðst afsökunar á því að Bretland sé enn í Evrópusambandinu og að ekki hafi tekist að standa við það að Brexit kæmist til framkvæmda 31. október. Það væru mikil vonbrigði að ekki hefði orðið af útgöngunni. 

Þetta sagði Johnson í viðtali á Sky News sjónvarpsstöðinni í morgun. Þar gagnrýndi hann Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir að hafa fullyrt að Brexit-samningur Johnsons myndi koma í veg fyrir viðskiptasamninga Bretlands og Bandaríkjanna. „Það er ekki ætlun mín að kasta rýrð á forsetann, en hann hefur fullkomnlega rangt fyrir sér,“ sagði Johnson.

„Allir, sem skoða samninginn, sjá að hann er frábær. Hann sér til þess að við höfum óskorað vald yfir tollamálum okkar,“ sagði Johnson.  

Hann sagðist vera með Brexit samning sem væri „tilbúinn beint í ofninn“ og varaði við „eitruðum og langdrægum harmleik“ kæmist Verkamannaflokkurinn til valda  eftir kosningarnar. 

mbl.is