Farage mun ekki bjóða sig fram

Nigel Farage.
Nigel Farage. AFP

Nigel Farage, leiðtogi breska Brexit flokksins, hyggst ekki bjóða sig fram í þingkosningunum sem fyrirhugaðar eru í Bretlandi 12. desember. Þetta sagði Farage í samtali við fréttamann breska ríkisútvarpsins, BBC.

„Á ég að reyna að koma mér inn á þing? Eða þjóna ég málstaðnum betur með því að fara vítt og breitt um Bretland og styðja frambjóðendur?“ spurði Farage í viðtalinu. Hann sagði að hann hefði íhugað vel og vandlega hvort hann ætti að bjóða sig fram og leggja áherslu á að vera forsætisráðherraefni. Hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að kraftar hans nýttust á annan hátt. 

„Það er mjög erfitt, að vera á þingi alla daga, og reyna á sama tíma að vera í sambandi við fólkið í landinu,“ sagði hann.

Farage hefur verið ötull gagnrýnandi Evrópusambandsaðildar Breta um áratugaskeið og hefur verið óspar á gagnrýni á framgöngu Boris Johnson, forsætisráðherra gagnvart Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert