Hyggjast taka á móti færri flóttamönnum

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Þeim flóttamönnum, sem veitt verður hæli í Bandaríkjunumm mun fækka mjög á þessu fjárhagsári. Þeir verða 18.000 sem eru færri flóttamenn en nokkru sinni síðan formleg áætlun um móttöku flóttafólks var innleidd í Bandaríkjunum árið 1980, en síðan þá hefur verið tekið á móti 3,8 milljónum flóttamanna og hælisleitenda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mike Pompeo , utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þar segir að Donald Trump forseti Bandaríkjanna hafi undirritað tilskipun þessa efnis í gær.  Pompeo greinir ennfremur frá þessu á twitter-síðu sinni.

Í tilkynningunni segir að Bandaríkin hafi teygt sig langt út fyrir móttökukerfi sitt til að taka á móti sem flestu flóttafólki. Á yfirstandandi fjárhagsári hafi Bandaríkjastjórn varið 9,3 milljörðum bandaríkjadollara í flóttamannaaðstoð af ýmsu tagi. „Það er hæsta framlag einstaks ríkis,“ segir í yfirlýsingunni. „Að aðstoða fólk sem næst heimili sínu er líklegri leið til að tryggja öryggi þeirra og að þau snúi aftur til síns heima.“

„Kjarni utanríkisstefnu ríkisstjórnar Trumps er að taka ákvarðanir byggðar á raunveruleika, ekki óskhyggju og að leitast eftir því að ná besta mögulega árangri í samræmi við þekktar staðreyndir,“ segir í tilkynningunni.

„Þessi ákvörðun er í samræmi við það og við munum áfram standa við þær langtíma skuldbindingar okkar um að koma þjóðum í vanda til bjargar.“

mbl.is