Keppni í hatri og öfgum

Um 13 milljónum íslenskra króna verður varið í norræna rannsókn ...
Um 13 milljónum íslenskra króna verður varið í norræna rannsókn á umfangi og birtingarmyndum kvenhaturs á netinu.

Um 13 milljónum íslenskra króna verður varið í norræna rannsókn á umfangi og birtingarmyndum kvenhaturs á netinu. Þetta var ákveðið af Norrænu ráðherranefndinni, á þingi Norðurlandaráðs í síðustu viku. Niðurstöður eiga að liggja fyrir haustið 2020 og á meðal þess sem rannsakað verður eru vefsíður, þar sem karlar tjá sig á hatursfullan hátt um konur. Danskur sérfræðingur segir að á slíkum síðum fari oft fram keppni í hatri og öfgum.

Markmið  rannsóknarinnar er meðal annars að varpa ljósi á hvað einkennir þá ungu karlmenn sem tjá sig á síðum sem þessum. Þá verður skoðað hvernig slík tjáning mótar viðhorf þeirra til jafnréttis. 

Fjallað er um þessa fyrirhugðu rannsókn á vef danska ríkisútvarpsins, DR. Þar segir Christian Mogensen sérfræðingur í samskiptum fólks á netinu og talsmaður Miðstöðvar stafrænnar hegðunar fyrir ungt fólk að öfugt við það sem gerst hafi í öðrum löndum hafi engri konu verið ráðinn bani í tengslum við kvenhatur sem þetta. „Ekki enn. En við sjáum karlmenn, sem eru andvígir femínískri hugmyndafræði sem skrifa um að byltingin sé handan við hornið og að „einhver þurfi að grípa til aðgerða.“ Hugmyndin er sannarlega til staðar,“ segir Mogensen.

„Drullukomment“ eða fúlasta alvara?

Hann hefur um langt skeið fylgst með vefsvæðum og spjallsvæðum þar sem fólk, einkum karlmenn, tjáir sig á hatursfullan hátt um konur, samkynhneigt fólk, gyðinga, múslíma og ýmsa aðra. Hann segir ákvörðun Norrænu ráðherranefndarinnar um að þessi orðræða verði rannsökuð vera skref í rétta átt. „Rannsóknin ætti að ná yfir tvennt; í fyrsta lagi hversu margir eru virkir í umræðu sem þessari og í öðru lagi hvort fólki sé alvara með þessum skrifum sínum eða hvort þetta séu „drullukomment“ - skrif sem ekki eru sett fram í fullri alvöru.

Hann segir að á mörgum spjallsvæðum sem þessum fari fram einhverskonar keppni í að ganga lengst í hatursfullum og öfgafullum skrifum. Þeir, sem þannig skrifi, hafi aftur á móti ekkert endilega hugsað sér að haga sér á þann hátt. Sumir skrifi þannig til að geta verið hluti af hópnum og þeirri stemningu sem þar myndast.

Rúm 27% ungra kvenna fá kynferðislegar hótanir á netinu

Norrænar rannsóknir sýna m.a. að rúm 27% kvenna og tæp 7% karla á aldrinum 16-24 ára  fái kynferðislegar hótanir eða meiðandi ummæli skrifuð um sig á netinu. Algengara er meðal kvenna en karla að hætta við þátttöku í opinberri umræðu vegna hatursfulla ummæla og karlar eru miklu fjölmennari en konur í hópi þeirra sem skrifar hatursfullar athugasemdir á netið.

Mogensen hefur rætt við fjölda ungra karlmanna sem hafa skrifað á hatursfullan hátt um konur á netinu. Hann segir að þeir eigi eitt sameiginlegt; vanlíðan. „Þetta eru karlar sem líður illa. Karlar sem hafa þá tilfinningu að þeir séu ekki nógu góðir. Og í staðinn fyrir að líta inn á við benda þeir á aðra, þeir benda á konur og segja að þær séu slæmar.“

Hann segir að ein ástæða þess að konur séu gerðar að blóraböggli í þessu sambandi sé sú að í hugmyndafræði ýmissa ýktra karlmennskusamfélaga sé konan eins og verðlaunagripur. „Ef karlmaður sængar hjá konu eða fær einhverja athygli hjá henni er það merki um velgengni hans. Svo, ef sú er ekki raunin, þá er hann lítilmótlegur og einskis virði.“

Segja að #metoo hafi gengið of langt

Í mörgum löndum hafa karlar, sem tjá sig á hatursfullan hátt um konur á netinu, framkvæmt það sem þeir skrifa um og myrt konur. Það hefur ekki gerst í Danmörku. „En sums staðar er einhvers konar stemning fyrir því að #metoo hreyfingin hafi gengið of langt og að „femínistarnir ættu að fara að skrúfa niður í sjálfum sér“. Og þegar þekkt fólk talar á þann hátt, þá vantar bara neistann sem kveikir bálið þar sem einhver ekur bíl inn í hóp kvenna eða skrifar yfirlýsingu um að hann „ætli að taka slaginn fyrir alla hina“ og myrðir síðan konur,“ segir Mogensen.

mbl.is