Lögbann sett á ákvæði Donalds Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti er tæpast sáttur með ákvörðun dómarans.
Donald Trump Bandaríkjaforseti er tæpast sáttur með ákvörðun dómarans. AFP

Héraðsdómari í Oregon-ríki í Bandaríkjunum hefur sett tímabundið lögbann á ákvæði sem Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði fram. Ákvæðið krefur innflytjendur í Bandaríkjunum um að sýna fram á að þeir muni afla sér sjúkratrygginga innan 30 daga eftir komuna til Bandaríkjanna, eða greiða sjálfir fyrir læknisþjónustu. 

Michael Simon, dómarinn sem umræðir, setti bráðabirgða lögbann á ákvæðið svo óbreyttu ástandi verði viðhaldið þar til unnt verður að taka efnislega afstöðu til ákvæðisins. 

Sjö bandarískir borgarar og félagasamtök höfðuðu mál vegna ákvæðisins. Segja lögaðilarnir að það myndi bitna á hundruð þúsunda löglegum innflytjendum og þá sérstaklega þeim sem þegar eiga fjölskyldur í Bandaríkjunum. 

Simon sagði í rökstuðningi sínum að líklegur skaði af ákvæðinu réttlætir lögbannið. 

„Við stöndum andspænis mögulegri hættu á að aðskilja fjölskyldur og hindra að einstaklingar öðlist vegabréfsáritun sem þeir eiga rétt á. Það er óbætanlegur skaði,“ sagði Simon. 

Lögbannið gildir í 28 daga og kemur í veg fyrir að ákvæðið taki gildi í dag líkt og fyrirhugað var, en samkvæmt BBC mun málið líklega verða leitt til lykta fyrir dómstólum. 

Ríkisstjórn Donald Trump hefur haldið því fram að löglegir innflytjendur séu þrisvar sinnum líklegri en aðrir borgarar til að vera ekki með sjúkratryggingar og að skattgreiðendur eigi ekki að þurfa að greiða sjúkrakostnað þeirra. 

Samkvæmt BBC eru innflytjendur þó ólíklegri til að notfæra sér heilbrigðiskerfið en bandarískir ríkisborgarar. Samkvæmt rannsókn George Washington háskóla var kostnaður vegna innflytjenda án sjúkratrygginga innan við 0,1% af heildarsjúkrakostnaði í Bandaríkjunum árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert