Trump: Engin ríkisaðstoð til Kaliforníu

Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín vegna eldanna.
Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín vegna eldanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur á ný hótað að synja Kaliforníuríki um ríkisaðstoð vegna skógarelda sem þar geisa, eftir að ríkisstjóri Kaliforníu, demókratinn Gavin Newsom gagnrýndi umhverfisstefnu stjórnvalda. Eldurinn, sem hefur geisað í vesturhluta ríkisins í á þriðju viku, hefur sviðið rúma 30.000 hektara lands og hefur fjöldi fólks þurft að flýja heimili sín.

Forsetinn sá ástæðu til að hnýta í yfirvöld Kaliforníu á Twitter fyrr í dag. „Ríkisstjóri Kaliforníu hefur staðið hræðilega að viðhaldi skóga. Ég hef sagt honum frá fyrsta degi að hann verði að „hreinsa“ jarðveginn í skógum sama hvers yfirmenn hans, umhverfisverndarsinnarnir, KREFJAST af honum,“ sagði forsetinn og bætti við að ekki skyldi leita alltaf til alríkisins í von um peninga.

Nokkrir dagar eru síðan Newsom gagnrýndi Trump í viðtali við blaðið New York Times, en þar benti hann á að forsetinn hefði ráðist í fjölmargar aðgerðir til að vinda ofan af reglugerðum í þágu umhverfisverndar. Má þar nefna nýlega lagasetningu sem bannar Kaliforníuríki að setja strangari skilyrði um útblástur bifreiða en þau sem ríkisstjórn Trump hefur sett.

Ekki er þó ljóst hvaða þýðingu orð Trumps hafa, en einungis sólarhringur er síðan stjórnvöld í Washington veittu framlög úr sjö sjóðum til slökkvistarfsins í Kaliforníu.

Slökkviliðsmenn taka sér pásu frá baráttunni við eldana í Santa …
Slökkviliðsmenn taka sér pásu frá baráttunni við eldana í Santa Paula í Kaliforníu. AFP
mbl.is