Konan og elskhuginn myrtu eiginmanninn

Það tók kviðdómara við dóm í úthverfi London ellefu klukkustundir …
Það tók kviðdómara við dóm í úthverfi London ellefu klukkustundir að komast að niðurstöðunni.

Kona og elskhugi hennar hafa verið dæmd sek um morð á eiginmanni konunnar en fólkið var með kynóra sem tengdust því að pína og drepa manninn.

Það tók kviðdómara við dóm í úthverfi London ellefu klukkustundir að komast að niðurstöðunni. 

Angela Taylor og Paul Cannon, bæði á sextugsaldri, hötuðu William Taylor en hann neitaði að skilja við Angelu. Hún hafði sóst eftir því að skilja frá árinu 2014 og hjónin bjuggu ekki saman þegar William Taylor lést.

Hjónin höfðu verið gift í 20 ár þegar William hvarf skyndilega af heimili sínu skömmu áður en hann varð sjötugur í júní í fyrra.

Átta mánuðum síðar fann sjómaður líkamsleifar hans við árbakka skammt norðan við London.

Ekki hefur tekist að ákvarða dánarorsök vegna þess hve illa líkið var farið.

Fyrir dómi kom meðal annars fram að parið hefði frá því í febrúar í fyrra sent smáskilaboð sín á milli um hvernig þau gætu skaðað William. Einnig ræddu þau um kynóra sem tengdust honum.

Cannon sagði Taylor meðal annars að hann myndi drepa fyrir hana. Hann sagðist einnig vilja stunda kynmök með henni og að eiginmaður hennar ætti að vera bundinn við stól þar sem hann neyddist til að fylgjast með þeim.

Parið sagði að einungis væri um hugaróra að ræða.

Saksóknari sagði að Cannon hefði drepið William á meðan Angela var heima. Hún væri hins vegar samsek vegna þess að hún hvatti hann til verksins.

mbl.is