Senda vígamenn til síns heima

Fangar í sýrlensku borginni Hasakeh sem eru grunaðir um að …
Fangar í sýrlensku borginni Hasakeh sem eru grunaðir um að vera vígamenn Ríkis íslams. AFP

Tyrknesk stjórnvöld ætla að senda vígamenn sem eru í haldi til síns heima og skiptir þar engu að viðkomandi hafi verið sviptur ríkisborgararétti.

Innanríkisráðherra Tyrklands, Soleyman Soylu, segir að tæplega 1.200 erlendir liðsmenn vígasamtakanna Ríkis íslams séu í haldi Tyrkja og af þeim hafi 287 verið handteknir í aðgerðum tyrkneska hersins nýverið í norðurhluta Sýrlands. Hann segir að þeir sem eru í haldi Tyrkja verði að sjálfsögðu sendir til sinna heimalanda. Þar skipti engu að viðkomandi ríki hafi reynt að hreinsa hendur sínar af viðkomandi með því að svipta þá ríkisborgararétti.

AFP

„Það er ómögulegt fyrir okkur að sætta okkur við það. Við sendum liðsmenn Daesh (Ríkis íslams) til sinna heimalanda hvort sem þeir hafa verið sviptir ríkisborgararétti eður ei,“ segir ráðherrann. 

Ekki liggur fyrir hvernig Tyrkir ætla að gera þetta. Vestræn ríki hafa oft neitað að taka við borgurum sem hafa yfirgefið heimalandið til þess að taka þátt í starfsemi vígasamtakanna í Sýrlandi. 

AFP

Þetta hefur verið gert þrátt fyrir að samkvæmt New York-sáttmálanum frá 1961 sé ólöglegt að svipta fólk ríkisfangi. Nokkur lönd hafa aldrei löggilt sáttmálann, þar á meðal Bretar og Frakkar, og hefur þetta valdið löngum og erfiðum lagadeilum og flækjum.

Bretar hafa svipt yfir 100 manns ríkisborgararétti fyrir að hafa gengið til liðs við Ríki íslams. Má þar nefna Shamima Begum og Jack Letts.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert