Tekur Clinton aftur slaginn við Trump?

Hillary Clinton tapaði með naumindum fyrir Trump í síðustu forsetakosningum. …
Hillary Clinton tapaði með naumindum fyrir Trump í síðustu forsetakosningum. Vangaveltur eru nú uppi um hvort hún muni gefa kost á sér á ný. AFP

Vel markaðssett kynning á nýrri bók, óteljandi sjónvarpsviðtöl, pólitískar deilur við frambjóðendur í forkosningum Demókrataflokksins vegna komandi forsetakosninga, svo ekki sé minnst á orðahnippingar við  Donald Trump Bandaríkjaforseta. Það er sterk framboðslykt af þessari samsetningu segir Guardian um hve mikið ber á Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra og forsetaframbjóðanda, þessi misserin. 

Enn sem komið er er þó ekki vitað til þess að Clinton hafi hug á að gefa kost á sér til forseta að nýju. Andrúmsloftið er engu að síður sérkennilegt og segir Guardian þær vangaveltur nú heyrast í Washington að í ljósi þess að Demókrataflokkurinn hafi enn ekki fundið rétta mótframbjóðandann gegn Trump, hvort Clinton muni þá gefa kost á sér á ný.

Clinton sendi nýlega, ásamt Chelsea dóttur sinni, frá sér bókina The Book of Gutsy Women sem útleggja má sem Rit hugaðra kvenna. Í kjölfarið lagði Clinton í ferðalag um Bandaríkin til að kynna bókina, hefur flutt fjöldann allan af ræðum og komið fram í fjölmörgum sjónvarpsþáttum.

Bókahöfundarnir Hillary og Chelsea Clinton með bókina The Book of …
Bókahöfundarnir Hillary og Chelsea Clinton með bókina The Book of Gutsy Women. AFP

„Ekki freista mín“

Clinton, sem tapaði með naumlega fyrir Trump í síðustu forsetakosningum, hefur auk þess orðið afkastameiri og árásargjarnari á Twitter, uppáhaldssamskiptamiðli forsetans. Þannig skrifaði Clinton í kjölfar þess að greint var frá því að Trump hefði þrýst á Úkraínuforseta að hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda: „Forseti Bandaríkjanna hefur svikið land okkar [...] Hann er hrein og klár ógn við það sem viðheldur styrk okkar og frelsi. Ég styð ákæruna.“

Full­trúa­deild Banda­ríkjaþings samþykkti í lok síðustu viku að setja rann­sókn á embættis­verk­um Trump  í form­legt ferli.

Í september sagði Clinton á Twitter forsetann vera „spilltan mannlegan skýstrók“ og skömmu síðar, eftir að Trump hafði gefið í skyn að Clinton ætti að skella sér í forsetaslaginn svaraði hún með orðunum: „Ekki freista mín. Sinntu starfi þínu.“

Sérkennilegast segir Guardian þó vera að Clinton hafi einnig gagnrýnt flokkssystur sína Tulsi Gabbard í nýlegu hlaðvarpsviðtali þar sem hún gaf í skyn að Rússar hefðu augastað á henni.

Donald Trump forseti Bandaríkjanna. Í september sagði Clinton á Twitter …
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. Í september sagði Clinton á Twitter forsetann vera „spilltan mannlegan skýstrók“ og skömmu síðar, eftir að Trump hafði gefið í skyn að Clinton ætti að skella sér í forsetaslaginn svaraði hún með orðunum: „Ekki freista mín. Sinntu starfi þínu.“ AFP

Fékk betri móttökur en eiginmaðurinn

Þegar Clinton var kynnt á svið hjá lagadeild Georgetown-háskólans í Washington ásamt eiginmanni sínum og forsetanum fyrrverandi Bill Clinton nýlega fékk hún mun betri móttökur. Í kjölfar #MeToo-bylgjunnar hefur forsetinn fyrrverandi sætt endurvakinni gagnrýni vegna sambands síns við lærlinginn Monicu Lewinsky og hafa frambjóðendur demókrata sýnt lítinn áhuga að hljóta á stuðning hans.

„Ég er sá eini hérna sem getur aldrei gefið kost á sér aftur,“ sagði Bill Clinton við þetta tækifæri. „Það er bannað með lögum. Hún kann að bjóða sig fram aftur eða gerir það ekki.“

Guardian segir vel hægt að segja eingöngu um öflugt markaðsstarf að ræða, ef ekki væri fyrir þá hræðslu sem gætir í röðum demókrata. Aldrei hafa fleiri frambjóðendur gefið kost á sér í forkosningunum en nú og fjölbreytileikinn er mikill. Engu að síður segja gagnrýnendur engan frambjóðendanna hafa pólitískan sjarma þeirra John F. Kennedy, Bill Clinton eða Barack Obama.

„Enginn þeirra veitir manni innblástur,“ segir John Zogby, sem útbýr skoðanakannanir fyrir Demókrataflokkinn, og bendir á að mjótt sé á munum milli efstu frambjóðendanna þeirra Joe Biden, Elizabeth Warren, Bernie Sanders og Pete Buttigieg.

Hillary og Bill Clinton ásamt Joe Biden fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna. …
Hillary og Bill Clinton ásamt Joe Biden fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna. Biden þykir mistækur í framboði sínu til forseta nú og hefur það vakið spurningar um hvort að Hillary Clinton eigi að gefa kost á sér. AFP

Tímabært að kveðja Clinton

Frank Bruni, dálkahöfundur hjá New York Times, sagði í síðasta mánuði frambjóðendurna alla vera ótryggt val og þótt hann sjálfur myndi án þess að hika kjósa hvern og einn þeirra umfram Trump, óttist hann að það sama gildi ekki um nógu marga landa sína.  

Í annarri grein sem birt var í blaðinu er þeirri spurningu sagt hafa verið velt upp á fundi fjársterkra stuðningsmanna flokksins hvort kostur sé á einhverjum öðrum frambjóðanda. Þar eru nöfn Clinton, Michael Bloomberg og Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrúar Bandaríkjanna, öll sögð hafa borið á góma.

„Frú Clinton og herra Bloomberg hafa bæði sagt fólki á einkafundum á undanförnum vikum að ef þau teldu sig geta sigrað myndu þau hugleiða að gefa kost á sér í forkosningunum,“ hafði New York Times eftir heimildamönnum. Þau efuðust hins vegar bæði um að það færi myndi gefast.

Í skoðanakönnun Fox-sjónvarpsstöðvarinnar er Hillary Clinton enn í myndinni  og var hún þar nýlega talin njóta 43% fylgis en Trump 41%

Misjöfn frammistaða Bidens í kappræðum hefur enn frekar kynt undir þessum vangaveltum, auk þess að vekja ótta hjá þeim stuðningsmönnum flokksins sem eru nær miðju. Eru þeir sagðir óttast að Warren eða Sandes kunni að taka flokkinn of langt til vinstri sem myndi reynast vatn á myllu Trump og fullyrðinga hans um að demókratar taki sósíalisma opnum örmum og ætli að hækka skatta.

Zogby telur þó ólíklegt að Clinton gefi kost á sér og segir margt af því sem íþyngi Biden í kosningabaráttunni einnig munu íþyngja Clinton.

„Ef það er eitthvað sem getur sameinað ólíkar hliðar flokksins þá er það að það er tímabært að segja skilið við Clinton-hjónin,“ sagði hann.

mbl.is