„Yfir heiminum vofir gríðarleg hætta“

Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna.
Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna.

Yfir heiminum vofir gríðarleg hætta vegna spennunnar á milli Rússlands og vestrænna ríkja. Þetta segir Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna. Hann hvetur ríki heims til að eyða kjarnavopnum sínum.

Gorbachev, sem er 88 ára, lét þessi orð falla í viðtali við Breska ríkisútvarpið, BBC, undir heitinu Gorbachev speaks out — eða Gorbachev talar út.

„Hversu hættulegt telurðu núverandi ástand á milli Rússlands og vestrænna ríkja vera?“ spurði Steve Rosenberg, fréttamaður BBC, Gorbachev. „Eins lengi og gjöreyðingarvopn verða til, sér í lagi kjarnavopn, er hættan gríðarleg,“ svaraði Gorbachev. „Allar þjóðir ættu að láta eyða kjarnavopnum sínum í því skyni að bjarga sjálfum okkur og jörðinni.“

Gorbachev og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna 1980—1988 náðu samningum um talsverða fækkun kjarnavopna á 9. áratugnum. Síðan þá hafa bæði Bandaríkin og Rússland sagt sig frá þessu samkomulagi.

Mikhail Gorbachev og Ronald Reagan á leiðtogafundinum í Höfða 1986. mbl.is/RAX

„Áður töluðum við um kalda stríðið. Hvernig myndirðu lýsa núverandi ástandi á milli Rússlands og vesturveldanna?“ spurði Rosenberg.

„Það er napurt, en engu að síður stríð,“ svaraði Sovétleiðtoginn fyrrverandi.

Samskipti Gorbachevs og Margaret Thatcher, sem var forsætisráðherra Bretlands á sama tíma og hann var leiðtogi Sovétríkjanna, þóttu góð. Spurður hvort hann gæti, í ljósi þess, gefið Bretum ráð í Brexit-deilunni, svaraði Gorbachev: „Þið getið fundið út úr því sjálf. Þið Bretar eruð snjallir. Ég ætla ekki að gefa ykkur nein ráð, þið finnið bara út úr þessu.“mbl.is