Heilsaði að hætti nasista

Philip Manshaus heilsaði einnig að hætti nasista þegar hann kom …
Philip Manshaus heilsaði einnig að hætti nasista þegar hann kom fyrir dómara í október. AFP

22 ára gamall Norðmaður, Philip Manshaus, sem er sakaður um að hafa myrt stjúpsystur sína og hafa ætlað að fremja hryðjuverk, heilsaði að hætti nasista þegar hann kom fyrir dómara í Ósló í gær.

Manshaus ruddist inn í Al-Noor-moskuna í Bærum í ágúst og hóf skothríð en var yfirbugaður af manni sem var þar. Manshaus var með myndavél á sér og ætlaði að taka ódæðisverk sín upp.

Við réttarhöldin í gær las Manshaus yfirlýsingu þar sem hann gaf upp ástæðuna fyrir því að hafa myrt stjúpsystur sína og framið árásina. Að hans sögn var ætlunin að vernda „fólkið hans“ og komandi kynslóðir og vísaði í kynþáttaátök milli ólíkra hópa, að því er segir í frétt VG. 

Að sögn saksóknara í lögreglunni í Ósló, Hilde Strand, kom ekkert nýtt fram í yfirlýsingu Manshaus í gær. Hann hefur játað að hafa myrt  Johanne Zhangjia Ihle-Hansen, sem var 17 ára gömul, en lík hennar fannst á heimili hennar í Bærum 10. ágúst. Hann játaði einnig að hafa ráðist inn í moskuna þann sama dag en að ekki hafi verið um hryðjuverk að ræða. Aðeins þrjár manneskjur voru í moskunni þegar hann kom þangað og tókst þeim að yfirbuga árásarmanninn. 

Lögregla segir að Manshaus sé með afar öfgafullar skoðanir og hati útlendinga. Hann hafi verið með myndavél á hjálmi sínum þegar hann réðst inn í moskuna. Héraðsdómur framlengdi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir Manshaus um fjórar vikur í gær. Lögregla gerir ráð fyrir því að ljúka rannsókn málsins í desember og að formleg ákæra verði gefin út fyrir jól.

Frétt VG

mbl.is