Kvað sig betri en Johnson og Corbyn

Jo Swinson.
Jo Swinson. AFP

Jo Sw­inson, leiðtogi Frjáls­lyndra demó­krata í Bretlandi, segir að þingkosningar í landinu 12. desember geti markað upphaf nýrra tíma. Swinson kveðst fullviss um að hún myndi standa sig betur í embætti forsætisráðherra en Boris Johnson, núverandi forsætisráðherra, eða Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.

Þetta kom fram í ræðu Swinson í dag þegar Frjálslyndir demókratar hófu kosningabaráttu sína en flokkurinn segist hætta við útgöngu úr Evrópusambandinu, komist hann til valda.

„Ég hélt að ég myndi aldrei segjast vera gott efni í forsætisráðherra en þegar við horfum á Johnson og Corbyn þá er ég viss um að ég geti staðið mig betur en þeir,“ sagði Swinson.

Hún sagði að Johnson hefði logið að drottningunni, þinginu og þjóðinni. Hann væri ekki hæfur til að gegn embætti forsætisráðherra.

Frjálslyndir demókratar hafa 20 þingmenn af 650 en Swinson sagði að skrítnari hlutir hefðu gerst og það væri raunhæft að flokkurinn myndi bæta vel við þingmannafjölda sinn í kosningunum í næsta mánuði.

mbl.is